138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:47]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að sjálfsögðu í endurskoðun á hverju einasta ári, ég get glatt hv. þingmann með því. Málið sem við erum að ræða er kynjakvóti. Það kemur mér virkilega á óvart að við séum komin í þá stöðu hér í þinginu að ræða þetta mál akkúrat núna, því óumdeilt er að vilji til að efla hlut kvenna í forustusveit atvinnulífsins er til staðar í viðskiptalífinu. Samstarfssamningur margra aðila viðskiptalífsins og fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi sýnir svo ekki verður um villst að viðskiptalífinu er veitt umboð til að leiða þetta brýna hagsmunamál án þess að til lagalegra þvingana komi af hálfu löggjafans. Það skýtur því skökku við að nú tæpu ári eftir undirritun samningsins sé komið á dagskrá Alþingis frumvarp um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þar sem lagt er til að komið verði á kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Valdboð er ekki rétta leiðin til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja. Það er ekki hlutverk ríkisins að hlutast til um það hverjir sitja í stjórnum fyrirtækja á frjálsum markaði. Hins vegar er nauðsynlegt að mannauðurinn verði nýttur til fulls, þannig að kraftar beggja kynja fái notið sín í atvinnulífinu. Framboð af hæfum, vel menntuðum og reynslumiklum konum sem fyrirtæki sjá sér hag í að fá til liðs við sig er til staðar. Hins vegar má færa rök fyrir því að konur þurfi með markvissari hætti að nýta fjármagn sitt, m.a. til að tryggja sér stjórnarsæti og stofna fleiri fyrirtæki, þar sem staðreyndin er sú að fjármagn hluthafa, þekking á rekstri og reynsla ræður mestu um val í stjórnir fyrirtækja. Ég held að það sé óumdeilt og allar rannsóknir benda til þess að konur hafi yfir að ráða hvað mestum fjármunum heimilisins hvað varðar neyslu, sparnað og annað slíkt. Það er spurning hvort við konur ættum kannski í frekara mæli að beina þessum fjármunum í þá átt að stofna fyrirtæki eða kaupa okkur inn í þau eða hvernig sem það er, ef við viljum sækja okkur þessi völd.

Setning laga sem þessara sem fela í sér kynjakvóta stjórnarmeðlima í fyrirtækjum, felur í sér frelsisskerðingu fyrir fyrirtæki og eigendur þeirra og sendir röng skilaboð til kvenna sem vilja ná árangri í viðskiptalífinu. Konur þurfa hvorki né vilja meðgjöf í viðskiptalífinu.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, varð ekki fyrsti þjóðkjörni kvenforseti heims í krafti kynjakvóta. Ef svo hefði verið, held ég að máttur hennar í embætti hefði verið minni. Hæstv. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrsti kvenforsætisráðherra Íslands, varð ekki forsætisráðherra í krafti kynjakvóta. Hún komst þangað á eigin verðleikum. Rannveig Rist er forstjóri Alcoa vegna eigin verðleika, ekki vegna kvóta. Hvaða skilaboð erum við að senda konum sem hafa náð árangri? Konur geta náð árangri án hjálpar kvóta. Hvað með þessar konur og margar fleiri, af hverju hafa þær náð árangri? Ekki var það kynjakvóta að þakka.

Við getum þetta sjálfar á eigin forsendum. Ég er alveg til í að tala um kvóta í sjávarútvegsmálum en ekki þegar kemur að konum og körlum. Ég vil ekki draga kynin í dilka. Það er mitt mat að farsælast sé fyrir þjóðfélagið að konur og karlar vinni saman að heill þess, hvort sem er á almennum markaði, innan fyrirtækja eða hjá hinu opinbera. Mér þykir ótækt að löggjafinn sé að setja lög um kynjakvóta þar sem hinu opinbera hefur gengið mjög illa að framfylgja þeim reglum sem löggjafinn hefur sjálfur sett hvað varðar kynjahlutföll í stjórnum opinberra stofnana og fyrirtækja, nefndum og ráðum og margt fleira, líkt og Ragnheiður Elín Árnadóttir hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni fyrr í dag.

Mig langar til að spyrja talsmenn þessa frumvarps út í það af hverju þessum kvóta sé einvörðungu beint að stjórnum fyrirtækja, fyrst við erum á annað borð að setja kvóta um kynjahlutföll í samfélaginu. Það er víða pottur brotinn samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem hér liggur að baki. Staðan er t.d. sú í dag að konur eru einn þriðji vinnuafls á almennum markaði og þrír fjórðu vinnuafls hjá hinu opinbera. Þurfum við ekki að breyta þessu eitthvað ef við ætlum að hafa þetta að leiðarljósi alls staðar? Þurfum við ekki að hafa helming karla og helming kvenna hjá hinu opinbera og helming kvenna og helming karla á almennum markaði?

Ég held að ef þessi hugmyndafræði eigi að vera ofan á, þetta valdboð, þessi lögþvingun, verði menn að skoða betur hvaða hugmyndafræði þeir boða. Við hljótum að líta til ýmissa stétta. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á það hér áðan að konur hefðu verið mun fjölmennari í háskólum landsins (BJJ: 26 ár.) í fjölda ára. 26 ár, kallar þingmaðurinn hér fram í, 26 ár. Finnst okkur það í lagi? Hallar ekki eitthvað á unga karlmenn þarna? Þurfum við ekki að leiðrétta þessa stöðu eitthvað? Af hverju sækja ungir karlmenn ekki í háskólanám eða framhaldsnám? Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að skoða? Við getum ekki horft alltaf á þetta bara út frá öðru sjónarmiðinu og því sem hentar hverju sinni. Það virkar ekkert þannig.

Mig langar til að rifja aðeins upp um hvað jafnréttisbaráttan snerist upphaflega. Jafnréttisbaráttan snerist upphaflega um það að kynferði ætti ekki að skipta máli, að konur ættu ekki að þurfa að þola misrétti fyrir það að vera kvenkyns og frekar ætti að líta til einstaklingsins sjálfs en kynferðis hans.

Í dag erum við hér á Alþingi að snúa þessu á haus, tapa baráttunni, líkt og hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á. Við erum að tapa baráttunni. Nema hvað, það erum við konur sem erum að tapa baráttunni. Nú á að gera kynferðið aftur að aðalatriði og það í lögum.

Ég verð að lýsa því yfir, virðulegi forseti, að ég er mjög ósátt við þá nálgun sem kemur fram í þessum lögum og ég tel að ef fyrirtækjum verður skylt að velja í stjórnir fyrirtækja sinna á grundvelli kynferðis, muni það vissulega leiða til þess að hlutur kynjanna verður jafnari, en ekki á okkar forsendum. Við komumst þá ekki inn á okkar eigin forsendum og í krafti eigin verðleika. En menn segja: Þetta eru ekki hótanir, þetta eru ekki hótanir. Þetta tekur gildi 2013. Hvað sagði hv. þm. Birkir J. Jónsson hér áðan?: Þetta mun hafa afleiðingar, þetta mun hafa afleiðingar. Hvað er það? Hvað er valdboð annað en hótun? Við ætlum að láta þetta hanga yfir hér í þrjú ár á meðan atvinnulífið hefur sett sér markmið. Ég treysti atvinnulífinu til að taka á þessum málum sjálft. Ég treysti því mun betur en einhverjum lagalegum þvingunum. Ég hef séð það í verki að vilji er hjá þeim til að gera þetta. Ég er sammála því sem fram hefur komið í ræðu hjá mörgum þingmönnum hér, að betra er að kynin starfi saman, en þarna er verið að stilla kynjunum upp hvoru á móti hinu. Í mínum huga snýst jafnrétti um jafnan rétt og jöfn tækifæri.