138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt sem ég vildi nefna í tilefni af ræðu hv. þm. Erlu Óskar Ásgeirsdóttur. Í fyrsta lagi sagði hún að við ættum ekki að beita hótunum eins og gert væri með þeim tillögum sem hér liggja fyrir og benti á að atvinnulífið hefði sjálft sett sér markmið í þessu efni. Þá velti ég fyrir mér hvernig það getur verið hótun af hálfu löggjafans þegar breytingartillögurnar sem liggja fyrir þinginu eru í samræmi við þau markmið sem atvinnulífið hefur sjálft sett sér í þessu efni. Viðskiptanefnd Alþingis tók einmitt tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram frá atvinnulífinu, ekki síst konum í atvinnurekstri, og hafði hliðsjón af því samkomulagi sem þar var gert milli fjögurra stjórnmálaflokka og atvinnulífsins um markmið í þessu efni. Sú tillaga sem liggur fyrir Alþingi núna gengur út á að fest verði í lög nákvæmlega það markmið sem þessir aðilar hafa sett sér. Hvernig má það vera hótun?

Í öðru lagi vek ég athygli á því að í þessari umræðu hafa nokkrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins beitt sér, af alefli vil ég leyfa mér að segja, gegn þeirri breytingartillögu sem hér hefur aðallega verið til umfjöllunar í tengslum við þetta frumvarp, þótt það fjalli um fleiri mál. Ég leyfi mér þess vegna að spyrja hv. þingmann: Mun Sjálfstæðisflokkurinn, komist hann nú einhvern tímann í framtíðinni til áhrifa og valda í þessu samfélagi, beita sér fyrir því að þessum lögum verði breytt og tekið út þetta ákvæði sem hugsanlega verður hér að lögum?