138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skilmerkileg svör við þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Ég vil fyrsta segja að ég er ósammála því mati þingmannsins að í þessari löggjöf, ef af verður, felist einhver hótun. Hér er löggjafinn þá fyrst og fremst að marka stefnu sem byggir á sömu markmiðum og aðilar vinnumarkaðarins hafa sjálfir sett sér þannig að það er ekki hótun, það er einfaldlega verið að segja: Við tökum undir þau markmið sem atvinnulífið hefur sett og við viljum festa þau í lög að tilteknum aðlögunartíma liðnum sem er hinn sami og atvinnulífið sjálft hefur sett sér. Ég tel alls ekki neina hótun felast í því nema síður sé.

Hitt finnst mér líka athyglisvert, að þingmaðurinn lýsti þeirri skoðun sinni, þótt það sé ekki bindandi fyrir framtíðarþingmenn Sjálfstæðisflokksins eins og þingmaðurinn komst að orði, að afnema ætti þessi lög ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til áhrifa. Mér finnst athyglisvert að halda því til haga í þessari umræðu, að menn viti af því hvað bíður þeirra ef Sjálfstæðisflokkurinn verður leiddur í valdastólana. (BJJ: Ekki lofar þetta nú góðu.)