138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:14]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í nokkrum orðum til að lýsa yfir ánægju minni með þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, sérstaklega sem kemur að því að jafna hlut karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja. Það er svo sem löngu kominn tími til að fara í þessa lagasetningu, staðreyndirnar og tölurnar tala sínu máli. Það er alveg ótrúlegt að árið 2009 hafi einungis 15% allra fyrirtækja á Íslandi verið með konur í stjórn. Það segir okkur að það sé löngu kominn tími til að gera breytingar á þessu máli. Konur hafa löngum lýst sig viljugar til að taka sæti í stjórnum fyrirtækja og ég minnist margra heilsíðuauglýsinga í dagblöðum þar sem konur hafa lýst því yfir að þær séu tilbúnar til að taka sæti í stjórnum fyrirtækja sé vilji fyrirtækjanna fyrir hendi. Það hefur því miður ekki skilað sér. Það sýnir sig á þeirri tölu sem ég nefndi áðan, aðeins 15% fyrirtækja hafa konur í stjórn. Þetta er náttúrlega áfellisdómur yfir einkageiranum, því miður, eins og hann er viljugur á öðrum sviðum gengur þetta ekki lengur. Þess vegna grípum við til þeirra úrræða að setja lög um jafnan hlut karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja.

Noregur hefur sýnt mjög góðan árangur á þessu sviði. Í frumvarpinu kemur fram að árið 2004 var hlutfall kvenna í stjórnum norskra fyrirtækja aðeins 9% en í fyrra, árið 2009, var hlutfallið komið í 36%. Það ætti að vera hvetjandi fyrir okkur til að taka þessa lagasetningu upp.

Það er góður tími fyrir fyrirtækin til að aðlagast þessu. Ég tel að samkomulagið sem aðilar vinnumarkaðarins undirrituðu í maí 2009 haldist í hendur við þessa lagasetningu. Fyrirtækin hafa góðan tíma til að aðlagast og geta sýnt á næstu þremur og hálfu ári að þau séu viljug til að taka konur inn í stjórnir fyrirtækja, þau hafa þrjú og hálft ár. Á þessum tíma skulum við meta hvort þetta hafi verið nauðsynlegt, en ég tel að við þurfum að setja öryggið á oddinn og hafa þessa lagasetningu fyrir hendi.