138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:18]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. forseta og óska þingmanninum til hamingju með jómfrúrræðuna. Það eru stórtíðindi og þetta mál er vel til þess fundið að taka til máls í fyrsta sinn.

Ég hef fylgst með umræðunni hér í dag og hún hefur verið málefnaleg og góð. Í mínum huga endurspeglast áherslumunur á milli stjórnmálaflokkanna í þessu máli. Við framsóknarmenn við styðjum það heils hugar og höfum verið á þessum nótum ansi lengi. Ég hef samt sagt að við eigum að hafa viðskiptalífið og atvinnulífið eins frjálst og kostur er en ég vil ganga mun lengra en sjálfstæðismenn í að móta skýran ramma utan um það. Ég tel að ef við hefðum gert slíkt á undanförnum árum værum við kannski í aðeins betri stöðu en við erum í dag. Ég er ekki að segja að við eigum að skipta okkur af daglegum rekstri sérhvers fyrirtækis heldur að hlutverk okkar hér á Alþingi sé einmitt að búa til þennan sterka ramma.

Mér finnst að við eigum að skipta okkur af hlutum þar sem hallar á einhvern hóp, hvort sem um er að ræða konur eða karla. Þess vegna styð ég að núna sé lagt á atvinnulífið að það lagi sig að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og reyni að jafna kynjahlutföllin í stjórnum fyrirtækja. Áðan kom fram að kannski væri með einum eða öðrum hætti verið að neyða fyrirtæki til þess að taka þetta upp en þetta er í fullu samræmi við þau skilaboð sem atvinnulífið sjálft hefur sent. Þess vegna held ég að það sé mjög gott að löggjafarvaldið fylgi því eftir og segi að ef atvinnulífinu takist þetta ekki sjálfu þurfi einfaldlega að setja þessar reglur, sem mér finnst afar jákvæðar.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri. Ég held að öll þau sjónarmið sem haldið hefur verið uppi í þessu máli hafi komið hér fram. Ég mun segja já við þessu máli og gott ef ég er ekki á því líka sem meðflutningsmaður. Ég hefði svo sannarlega viljað vera það ef ég er það ekki.