138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina. Það kann vel að vera að þingmaðurinn upplifi hugtakið sjálfbæra þróun sem einhvers konar pólitískan rétttrúnað og kannski má segja að við þyrftum að búa yfir ríkara orðfæri á þessu sviði en við gerum. Á bak við þetta hugtak er nú býsna margt og hin opinbera skýring og skilgreining er að sjálfsögðu sú að við stöndum þannig að þróun samfélagsins að við göngum ekki á þau gæði sem okkur eru fengin þannig að komandi kynslóðir geti ekki notið þeirra með sama hætti. Eins og segir reyndar í athugasemdum með frumvarpinu erum við að vísa í alþjóðlegar skuldbindingar, m.a. Staðardagskrá 21, og almenna stefnumótun stjórnvalda, m.a. í umhverfismálum. Við viljum að þau séu höfð að leiðarljósi.

Eins og hér er verið að reyna að færa rök fyrir getum við einmitt skilað betri árangri í umhverfismálum, í fjárhagsmálum, þ.e. efnahagsmálum, og félagslegum málum ef við aukum hlut almenningssamgangna og þá á kostnað einkasamgangna. Þetta á auðvitað ekki síst við um samgöngur á landi. Ég geri mér alveg grein fyrir að það er erfitt að hugsa þetta varðandi flugsamgöngur með öðrum hætti en að breyting verði á eldsneyti eða að farartækin verði þannig tæknilega útbúin að þau noti, getum við sagt, umhverfisvænni orkugjafa eða geti verið knúin áfram með minna eldsneyti. (Forseti hringir.) Sérstaklega á þetta við um samgöngur á landi og þar held ég að möguleikarnir séu mjög miklir í þessu efni.