138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður segir um þetta efni. Lagafrumvörp og lög þurfa að vera skýr og öllum þarf að vera ljóst hvað átt er við með þeim texta sem þar liggur að baki.

Til viðbótar því sem ég nefndi áðan er m.a. fjallað um það í greinargerðinni hver röksemdin er nákvæmlega fyrir því að aukinn hlutur almenningssamgangna geti haft jákvæð áhrif, t.d. til þess að bæta loftgæði og auka umferðaröryggi sem eru þættir sem ég tengi m.a. við hugtakið sjálfbæra þróun. Þar er bent á að mengun á hvern farþega í almenningssamgöngutæki er minni að meðaltali af farþega en t.d. í einkabíl. Kostnaður vegna umferðarmannvirkja er væntanlega minni á hvern farþega í almenningsvagni en í einkabíl. Almenningssamgöngur krefjast minna landrýmis undir umferðarmannvirki en einkabílar. Umferðartafir eru ólíklegri í umhverfi sem býður upp á góðar almenningssamöngur sem raunhæfan ferðamáta. Hærra hlutfall farþega í almenningsvögnum dregur úr tíðni umferðarslysa. Svona má áfram telja.

Ég held að það séu sem sagt margvísleg rök sem sýna fram á að við erum að búa til betra umhverfi fyrir okkur sjálf og fyrir komandi kynslóðir með auknum hlut almenningssamgangna, hvort sem við horfum á fjárhagsleg málefni, efnahagsleg málefni, umhverfismálin, loftgæði og annað slíkt, eða bara hið almenna samfélag, líka á milli íbúa svæða.

Ég tel að ágæt rök séu færð fyrir þessu hér og ef (Forseti hringir.) hægt er að umorða hluti í frumvarpinu þannig að þeir nái þessari hugsun betur er sjálfsagt að skoða það á vettvangi nefndarinnar. (Gripið fram í: Fullyrðingar …)