138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta svar. Þetta er, eins og hv. þingmaður nefndi, mjög mikilvægt mál. Hér er eingöngu verið að setja ramma utan um gríðarlega umfangsmikinn málaflokk sem almenningssamgöngur eru. Ég vil ítreka það og beini því til hv. þingmanns, ef þetta verður nú að veruleika — ég nefndi þau mikilvægu mál sem almenningssamgöngur eru hér á höfuðborgarsvæðinu — að menn gleymi ekki landsbyggðinni í þessum efnum. Reikningar heimila þar hafa verið að hækka í gríðarlega miklum mæli á meðan launin hafa verið að lækka og skattarnir hækka — við þekkjum þetta allt saman. Gæta þarf að því að þeir hlutar landsins verði ekki út undan í þessari mikilvægu vinnu.

Ég ítreka enn og aftur spurningar mínar til hv. þingmanns, sem snúa m.a. að ferjusamgöngum, hvert hans álit sé í þeim efnum. Hvað mig varðar er ferjan til Grímseyjar, Hríseyjar eða Vestmannaeyja þjóðvegur þessara íbúa og þeirra sem vilja sækja þessar byggðir heim, það er vissulega þjóðvegurinn. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé mér sammála um það að skilgreiningaratriðið ætti að vera þjóðvegur og að mögulega sé hægt að bæta þjónustuna að einhverju leyti eða hafa hana hagkvæmari fyrir íbúa eyjanna.

Þetta er stórmál hér og eins þjónustuþörfin, sem hv. þingmaður nefndi, sem er í mörgum byggðarlögum í hinum dreifðu byggðum — fólk þarf lífsnauðsynlega að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið. Eins og ég nefndi hér áðan, og benti á hv. þm. Þuríði Backman, eða frú forseta, er kostnaður, til að mynda íbúa á Austurlandi eða á Vestfjörðum við að sækja sér ákveðna þjónustu sem höfuðborgin veitir eingöngu orðinn óheyrilega hár. Hefur hv. þingmaður hugsað það hvort hægt sé að koma til móts við íbúa í þessum byggðarkjörnum (Forseti hringir.) með því að lækka þessa reikninga með einhverjum hætti?