138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[18:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þingmanninum um að staðsetning flugvallarins skiptir ekki nákvæmlega öllu máli, hvort hann er þar sem hann er í dag eða hvort honum verði þokað um einhverja kílómetra. Ég held hins vegar að sú umræða sé óraunhæf. Ég held að enginn staður hér í Reykjavík sé betur til þess fallinn að gegna þessu hlutverki en staðurinn þar sem flugvöllurinn er í dag. Maður veltir líka fyrir sér hvernig hægt sé að færa hann til innan höfuðborgarsvæðisins án þess að það hafi í för með sér gríðarlegan kostnað. Hefðu menn ekki líka átt að hugsa fyrir annarri staðsetningu á t.d. háskólasjúkrahúsinu, sem stendur til að byggja fyrir gríðarlega fjármuni, ef menn hafa slíkar hugleiðingar eða hugmyndir í kollinum? Ég get alveg tekið undir að það þurfi að endurskoða þessi mál eins og önnur en það skapar gríðarlegt óöryggi meðal þeirra sem nýta sér þann kost að geta flogið beint í hjarta stjórnsýslu landsins þegar endalaust er talað um að það standi til að færa hugsanlega flugvöllinn. Hvernig væri t.d. að við kæmum okkur saman um að byggja hann upp eins og hann er og koma á þessari öflugu samgöngumiðstöð sem ég veit að er í farvatninu en hefur því miður tafist?

Ég vil samt segja, og taka svo sem undir með hv. þingmanni, að þetta er ekki meginatriði frumvarpsins sem hér er til umræðu en var kannski ágreiningsflöturinn milli okkar. Ég fagna þessu frumvarpi og vona að það verði að veruleika en ég vona líka að við munum taka meiri umræðu um samgöngur (Forseti hringir.) yfirleitt, um allt landið.