138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

20. mál
[18:44]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu heils hugar, enda mikið í húfi, hreinlega almannaheill. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt okkur að neysla á matvörum sem innihalda transfitusýrur eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, einkum vegna þeirra áhrifa sem þær hafa til hækkunar á LDL-kólesteróli í blóði sem er oft kallað slæma kólesterólið og lækkunar á HDL-kólesteróli eða góða kólesterólinu. Mettuð fita er auðvitað einnig áhættuvaldur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma, líkt og transfitusýrur en transfitusýrurnar eru þó taldar mun skaðlegri. Þess má geta að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur óæskilegt að magn transfitusýra fari yfir 2 g á dag eins og kom reyndar fram í máli 1. flutningsmanns, en við Íslendingar neytum 35 g á dag að meðaltali, það þýðir að margir neyta mun meira magns.

Transfitusýrur er að finna frá náttúrunnar hendi í vörum eins og rjóma og smjöri, sem okkur ber auðvitað að neyta eingöngu í hóflegu magni, en mesta magnið fær fólk þó úr hertri fitu sem notuð er við framleiðslu margvíslegra matvæla. Þetta á reyndar einkum við um bökunarsmjörlíki eða djúpsteikingarfeiti sem notuð er við að framleiða matvæli eins og t.d. djúpsteiktan skyndibita, snakk, sælgæti, kökur, kex og franskar kartöflur svo eitthvað sé nefnt.

Mjög erfitt er fyrir neytendur að átta sig á hvort vara inniheldur transfitusýrur. Ekki er skylda að hafa næringargildismerkingu á matvörum hér á landi nema þegar fullyrt er um næringarfræðilega eiginleika í viðkomandi vöru. Reyndar er það svo að samkvæmt merkingarreglugerð má ekki tilgreina magn transfitusýra á umbúðum íslenskra matvæla. Þetta setur neytendum og matvælaframleiðendum nokkrar skorður. Það má hvorki vara við miklu magni né tilgreina að varan innihaldi ekki transfitusýrur og þetta gerir neytendum verulega erfitt fyrir. Neytendur eru því í nokkuð erfiðri stöðu, auk þess sem þetta fyrirkomulag er ekki hvetjandi fyrir framleiðslufyrirtækin til að framleiða hollari og betri vöru.

Mikið er í húfi að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga. Reynslan frá Danmörku hefur sýnt að neysla á transfitusýrum minnkaði úr 6 g á dag frá árinu 1976 niður í 1–2 g á dag eftir setningu laganna. Á þessum árum hefur tíðni dauðsfalla vegna hjartasjúkdóma í Danmörku minnkað um 50%.

Þá hefur einnig verið rætt hvort neysla á transfitusýrum auki líkur á sykursýki 2 og krabbameini og þótt niðurstöður rannsókna séu misvísandi og ekki eins afgerandi eins og þegar um hjarta- og æðasjúkdóma er að ræða, ætti öllum að vera ljóst að við ættum öll sem eitt að reyna að takmarka neyslu á transfitusýrum eins og hægt er. Ljóst er að þær eru alla vega ekki til góðs og vel má framleiða matvæli án aukins tilkostnaðar með þeim hætti að transfitusýrur myndist ekki í fæðunni. Þetta er bara spurning um verklag og hráefni. Ég styð þessa tillögu eindregið og þakka flutningsmönnum hennar fyrir að leggja hana fram.