138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

réttarbætur fyrir transfólk.

168. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um réttarbætur fyrir transfólk eða transgender. Ásamt þeirri sem hér stendur eru flutningsmenn þessarar tillögu hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Siv Friðleifsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Birgitta Jónsdóttir, Ögmundur Jónasson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Eygló Harðardóttir.

Tillagan felur í sér að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera tillögur að úrbótum á stöðu transfólks á Íslandi. Nefndin verði skipuð fulltrúum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis, hagsmunasamtaka transfólks og Amnesty International. Nefndin kanni lagalega og félagslega stöðu transfólks á Íslandi og geri tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til að hvers kyns misrétti gagnvart transfólki hverfi hér á landi og full mannréttindi verði tryggð. Tillögur nefndarinnar liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl 2010.

Hvers vegna er þetta lagt hér fram? Jú, vegna þess að réttarstaða transfólks á Íslandi er bæði veik og óljós. Engin sérstök lög gilda um málefni transfólks hérlendis ólíkt því sem víða gerist erlendis og margt vantar upp á að lagalegt jafnræði og full mannréttindi séu tryggð. Þannig er m.a. ýmislegt óljóst þegar kemur að meðhöndlun transfólks innan heilbrigðisgeirans og umboð og réttarstaða þegar kemur að læknisfræðilegri meðferð er einnig óskýr. Þá er og ýmislegt óljóst þegar kemur að óskoruðum rétti transgender einstaklinga til að óska eftir breytingu á skráningu nafns og kyns í þjóðskrá. Einstaklingur sem lifir í nýju kynhlutverki getur ekki fengið nafni sínu breytt nema hafa gengist undir aðgerð til leiðréttingar á kyni, jafnvel þótt einungis hluti transfólks gangist undir slíka aðgerð.

Í áliti umboðsmanns Alþingis sem snertir réttarstöðu transfólks, í máli nr. 4919/2007, dagsett 27. apríl 2009, segir m.a., með leyfi forseta:

„Umboðsmaður taldi ljóst að skortur á lagafyrirmælum um það hvort og að uppfylltum hvaða skilyrðum þessir einstaklingar gætu óskað breytingar á opinberri skráningu nafns og eftir atvikum kyns gæti haft veruleg áhrif á aðstæður þeirra og einkalíf í merkingu 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

Að mati umboðsmanns Alþingis er réttur einstaklinga til auðkennis, sjálfsímyndar og nafns varinn af ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Umboðsmaður taldi í þessu samhengi tilefni til að vekja athygli dómsmálaráðherra og Alþingis á nauðsyn þess að tekin yrði afstaða til þess hvort þörf væri á að setja skýrari reglur um rétt transfólks til að óska eftir breytingu á skráningu nafns og eftir atvikum kyns í þjóðskrá. Umboðsmaður vakti einnig athygli heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og Alþingis á nauðsyn þess að lagt yrði mat á, með leyfi forseta:

„hvort mæla skuli með skýrum hætti fyrir í lögum um þær reglur sem eigi að gilda um möguleika einstaklinga með kynskiptahneigð til að gangast undir kynskiptiaðgerð og þá um málsmeðferð og skyldur stjórnvalda í því sambandi sem og þau réttaráhrif sem læknisfræðileg greining á kynskiptahneigð og kynskiptiaðgerðin sem slík kynni að hafa í för með sér fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga.“

Það er mat flutningsmanna þessarar tillögu að nauðsynlegt sé að tryggja transfólki full mannréttindi og skýra réttarstöðu á öllum sviðum hérlendis. Til að móta framsækna löggjöf í þessum efnum er m.a. hægt að sækja fyrirmyndir til hins besta sem finnst í löggjöf annars staðar, t.d. á Norðurlöndunum og í Hollandi, og betrumbæta það sem þar vantar upp á. Mikilvægt er að réttarbætur til handa transfólki séu gerðar með heildstæða löggjöf í huga sem taki á skýran og óyggjandi hátt á málefnum transfólks á Íslandi. Bein aðkoma fulltrúa hagsmunasamtaka transfólks að slíkri vinnu, sem og alþjóðlegra mannréttindasamtaka sem hafa látið sig málið varða, er nauðsynleg. Takmarkið hlýtur að vera að íslensk löggjöf verði í alla staði til fyrirmyndar þegar kemur að mannréttindum og jafnræði allra þegna samfélagsins, þar með talið transgender einstaklinga.

Hér er í raun lagt til að sama aðferðafræði sé notuð og þegar Alþingi samþykkti réttarbætur fyrir samkynhneigða, svo sem um staðfesta samvist, en þar var settur á laggirnar breiður starfshópur til að fara yfir sviðið. Það hefur verið okkur mikil gæfa og það var líka mikil gæfa að það var einmitt þverpólitísk samstaða og sátt um að ráðast í þær réttarbætur sem þar var um að ræða. Það er okkur öllum gríðarlega mikilvægt. Bætt réttarstaða og full mannréttindi hlýtur að vera eitthvað sem hið nýja Ísland vill halda áfram að byggja upp. Frjálslynt Ísland mannréttinda er það sem við stefnum að og þessu getum við nú þegar verið stolt af og byggt styrk okkar á, þ.e. að tryggja minnihlutahópum fullt jafnræði og að hér getum við stolt litið á fjölbreytt mannlíf og umfaðmað það í anda mannréttinda og verið þar framarlega í flokki.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Þetta er e.t.v. lítill hópur í okkar samfélagi og ekki margir einstaklingar en málið er gríðarlega mikilvægt fyrir líf þessara einstaklinga sem við eigum að taka mjög alvarlega og gera þeirra baráttu að okkar.