138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

réttarbætur fyrir transfólk.

168. mál
[18:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ljósi tímarammans vel ég andsvarsformið til þess að koma því á framfæri að í þessari þingsályktunartillögu eru flutningsmenn úr öllum flokkum, m.a. sú er hér stendur. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að tekið verði á þessu máli og tek undir megininnihaldið í ræðu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Sá hópur sem við ræðum hér um, transfólk eða transgender á Íslandi, er ekki stór hópur en það er mjög mikilvægt að hann njóti réttinda á við aðra. Umboðsmaður Alþingis hefur komið því á framfæri eftir að hafa skoðað mál þessa hóps að það þurfi að taka á stöðu hópsins í heild og hefur m.a. vakið athygli tveggja hæstv. ráðherra á því, bæði hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra, og einnig Alþingis alls um að það sé nauðsynlegt að skoða mál þessa hóps miklu betur og taka afstöðu til þess hvernig eigi að halda á réttindum þeirra.

Sú er hér stendur telur mjög mikla þörf á því að samþykkja þetta mál, fagnar því að það sé komið fram og styður það heils hugar og ætlast ekki til þess að 1. flutningsmaður svari endilega þessu andsvari af því að þetta er yfirlýsing um mikinn stuðning við málið.