138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir þau orð sem hér hafa fallið um nauðsyn atvinnuuppbyggingarinnar og ég fagna sérstaklega orðum og ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ég lýsi mig sammála meginhluta þess sem kom fram í máli hans. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Ég vil nota tækifærið til að hvetja hv. þingmann til að taka þetta upp á næsta sameiginlega fundi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem eru nú orðnir frægir, a.m.k. í fjölmiðlum.

Hv. þm. Þór Saari kom nákvæmlega inn á það sem skiptir einna mestu í dag, heimilin. Það er mjög skrýtið að sjá hvernig ríkisstjórnin virðist bregðast við þegar ákallið kemur sterkar og sterkar um einhverjar raunhæfar aðgerðir. Við hljótum áfram að kalla eftir þeim og því tek ég undir orð hv. þingmanns áðan.

Frú forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði þinginu frá því að hann væri búinn að kjósa vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fyrirhuguð er á laugardaginn. Það er með ólíkindum að hlusta á yfirlýsingar forráðamanna ríkisstjórnarinnar um að best sé að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verði alls ekki. Ríkisstjórnin virðist hafa það að markmiði að koma í veg fyrir að þjóðin fái að nýta þennan rétt sem hún svo sannarlega hefur og er búið að veita henni. Það finnst mér mjög merkilegt. Það er klárlega ekki til þess, frú forseti, að bæta samningsstöðu okkar sem er orðin býsna góð vegna þess að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum. Slíkar yfirlýsingar sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa uppi eru ekki til að bæta samningsstöðuna.

Frú forseti. Ég hvet þingmenn alla og þjóðina alla til að nýta þennan rétt sinn á laugardaginn. Þeir sem eru hræddir við að ríkisstjórnin taki þennan rétt af þeim ættu að sjálfsögðu að kjósa utan kjörstaðar og sýna álit sitt með því. Á laugardaginn fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um vonlausan samning og honum ber að hafna.