138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Af hverju eykst atvinnuleysi stöðugt á Íslandi? Af hverju eykst landflótti stöðugt hér? Af hverju er stöðugt meiri samdráttur í byggingariðnaði? Vegna þess að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar vandanum hafa verið ófullkomnar og óburðugar.

Af hverju er stöðugt verið að þvælast fyrir nauðsynlegri orkunýtingu í neðri Þjórsá? Vegna þess að ríkisstjórnin er í grundvallaratriðum ósammála um hvernig haga eigi orkunýtingu.

Ræða hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar var orð í tíma töluð. Hún er líka hárbeitt gagnrýni á samstarfsflokk Samfylkingarinnar, Vinstri græna, hárbeitt gagnrýni á það að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna skilja ekki nauðsyn þess að nýta orkuna í neðri Þjórsá, virkja Búðarhálsvirkjun hratt og vel, koma atvinnulífinu af stað á Íslandi eins fljótt og kostur er. Þetta samhengi hlutanna skilur þingflokkur Vinstri grænna alls ekki. Ræðan sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hélt áðan er skýrt dæmi um þær ógöngur sem þessi ríkisstjórn er komin í nú um stundir.

Ríkisstjórnin hefur ekki burði til að taka nauðsynlegar ákvarðanir til að koma súrefni í íslenskt efnahagslíf. Þessi ríkisstjórn hefur ekki getað komið með lausnir á vanda heimilanna sem vex stöðugt. Þessari ríkisstjórn hefur gjörsamlega mistekist ætlunarverk sitt og hún getur ekki starfað lengur áfram. Icesave-málið hefur verið í tómri vitleysu allt frá upphafi og það var ekki vegna samstarfsvilja ríkisstjórnarinnar lengst af sem við höfum þó náð þeim árangri sem hér hefur náðst. Nú tala ráðherrar ríkisstjórnarinnar um það út og suður hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú atkvæðagreiðsla hefur verið besta vopnið okkar í samningum við viðsemjendur.

Núverandi ríkisstjórn er gagnslaus og hún þarf að fara frá.