138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér fara fram um atvinnumálin. Þetta er líklega merkilegasta og brýnasta viðfangsefni okkar í þinginu á næstu vikum og mánuðum.

Vandinn í orkugeiranum kristallast í tvennu, í fyrsta lagi skorti orkufyrirtækjanna á fjármagni til að hefja framkvæmdir og í öðru lagi er mikill flöskuháls í kerfinu okkar á suðvesturhorninu. Það er hreinlega ekki orka á lager til að setja í nýjar framkvæmdir. Þetta er flöskuhálsinn sem við þurfum að losa. Það stendur mjög í veginum fyrir uppbyggingu á nýjum atvinnugreinum sem gjarnan eru að banka á dyrnar til hliðar við þær greinar sem hafa verið byggðar upp í landinu nú þegar, ýmiss konar grænn iðnaður til að mynda, gagnaver, kísilverksmiðjur o.s.frv., sem hafa óskað eftir orku frá íslensku orkufyrirtækjunum en fá engar skuldbindingar af því að það er allt annaðhvort frátekið í stóriðjuverkefni sem við bíðum enn eftir að komist til framkvæmda eða þá að orkan er hreinlega ekki til í kerfinu okkar. Þessu þurfum við að breyta og sem betur fer eru að koma í hendur okkar tæki á næstu vikum og mánuðum, rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem við getum notað og gefur okkur loksins yfirsýn yfir þá orkukosti sem koma til greina í framtíðinni.

Skyldur okkar í dag í þinginu og hjá stjórnvöldum eru ekki síst við þann allt of stóra hóp af fólki sem gengur um atvinnulaust. Það er gleðiefni að félagsmálaráðuneytið í góðri samvinnu við menntamálaráðuneytið og fleiri aðila hefur þegar sett í gang mjög metnaðarfullt átak sem á að beinast sérstaklega að ungu fólki og á að tryggja úrræði fyrir 2.400 ungmenni strax á þessu ári. Stefnumótunin er sú að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því að fólk á þessum aldri missir atvinnu og þangað til viðkomandi bjóðast úrræði.

Það er fleira í pípunum: nýr fjárfestingarsjóður fyrir ferðaþjónustuna, Nýsköpunarmiðstöð er að setja í gang átak með 500 verkefnum sem lúta að viðhaldi bygginga um land allt. Það er verið að endurreisa Lánatryggingasjóð kvenna, byggja upp lánatryggingar fyrir frumkvöðla, fjárfestingarsjóð fyrir þá sem vilja styðja uppbyggingu sprotafyrirtækja og svo mætti lengi telja. Það er allt á fullu í atvinnumálunum (Forseti hringir.) og sjónarhornið er fjölbreytni í úrræðum þannig að ekki sé treyst á eina atvinnugrein heldur margar.