138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

aðgangseyrir að Listasafni Íslands.

241. mál
[14:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og þingmaðurinn nefndi var þessi tilraun gerð fyrir nokkrum árum í kjölfar árangursstjórnunarsamnings sem gerður var milli menntamálaráðuneytis og Listasafnsins í desember árið 2005. Í framhaldinu var ákveðið að gera þessa tilraun og fella niður aðgangseyri. Var það gert frá febrúarmánuði 2006 og síðan var ákveðið að skoða að tveimur árum liðnum hvaða áhrif hún hefði haft á þróun gestafjölda.

Það kemur í ljós þegar sú þróun er skoðuð, mér finnst mikilvægt að halda því til haga í þessari umræðu, að gestum fjölgaði umtalsvert við þessa tilraun, að fella niður aðgangseyri. Á árunum 2003–2005 var gestafjöldi í kringum 30 þúsund manns á ári en hann nánast tvöfaldaðist á árunum 2006–2008, gestir voru tæplega 58 þúsund talsins 2006, 66 þúsund 2007, 56 þúsund 2008 en á árinu 2009 voru þeir reyndar aðeins færri eða u.þ.b. 50 þúsund. Það sést því að þetta hefur haft áhrif til að fjölga gestum þó að auðvitað hafi sýningarval og annað áhrif á gestafjölda og gestafjöldi rokkar auðvitað aðeins á milli ára eins og þið heyrið.

Síðustu árin áður en aðgangseyrir var felldur niður höfðu tekjur af honum verið u.þ.b. 10 millj. kr. árlega. Þessar tekjur féllu niður frá árinu 2006 en á því ári gerði safnið samning við styrktaraðila sem var Samson ehf. Tekjur af því samstarfi gerðu betur en að bæta safninu þetta tekjutap á árunum 2006 og 2007, en vegna efnahagshrunsins hefur safnið ekki fengið neinar tekjur úr þeim samningi síðan á árinu 2008.

Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi liggur auðvitað fyrir að Listasafn Ísland þarf að skera niður og það er eðlilegt að safnið horfi á allar leiðir í þeim efnum. Safnið hefur skilað inn rekstraráætlun fyrir árið 2010. Þar er velt vöngum yfir því hvort unnt sé að taka upp aðgangseyri. Ég get sagt það að ég hef ekki verið mjög hlynnt aðgangseyri almennt á söfn og hef talið að þetta hafi gefist vel. Hins vegar sjáum við líka að sum söfn á borð við Þjóðminjasafnið hafa frekar valið þá leið að innheimta aðgangseyri almennt en vera síðan með frídaga inni á milli. Þar er talið að það hafi skilað mjög góðum árangri að veita öllum aðgang að safninu á þessum frídögum, fjölskyldur nýta sér safnið mikið þá, en á móti kemur að aðgangseyririnn skilar umtalsverðum sértekjum.

Sú leið sem verið hefur til skoðunar hjá Listasafninu er að meta stöðuna í upphafi árs, þ.e. hvernig safnið sér fyrir sér að það muni geta innheimt sértekjur, t.d. í gegnum verslun sem rekin er í safninu og annað slíkt. Ef sú spá gengur eftir er hugsanlegt að skoða það frá miðju ári að taka upp aðgangseyri en eingöngu að sérsýningum sem fengnar eru sérstaklega til landsins, til að mynda eftir sérstakan höfund, en ekki að sýningum á verkum í eigu Listasafnsins. Aðgangur að verkum í eigu safnsins yrði áfram ókeypis. Ef þessi leið yrði farin og miðað við að u.þ.b. helmingur gesta mundi kannski kjósa að borga aðgangseyri gæti það skilað 10 millj. kr. í sértekjur miðað við að hann yrði þá hóflegur eða sé 500 kr.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun þótt, svo ég ítreki þá afstöðu, ég sé almennt hlynnt því að reynt verði að hafa menningarlífið sem aðgengilegast og þá ekki með aðgangseyri. Þá er líka skilningur á því að valkostirnir geta verið erfiðir, hvort innheimta á hóflegan aðgangseyri eða hugsanlega að skerða þjónustu safnsins. Við munum fara yfir þetta með Listasafninu þegar betur liggur fyrir spá um sértekjur ársins sem verður núna á vormánuðum. Þá hefur þessi leið verið skoðuð af safninu og er til umræðu.