138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

aðgangseyrir að Listasafni Íslands.

241. mál
[14:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er svo sem hægt að taka undir að það er mikilvægt að söfnin séu sem aðgengilegust en þegar hinn napri raunveruleiki blasir við verður að skoða alla möguleika. Ég fagna því sérstaklega að menntamálaráðherra útilokar ekkert í því samhengi. Ég fagna því líka sem fram kom í svari hæstv. ráðherra að menn eru að leita allra leiða til þess að sjá hvernig hægt er að halda uppi þessari miklu aðsókn og um leið er reynt að leita aukinna tekna. Það kann að vera að þetta sé sú leið sem er góð fyrir safnið, að það kosti inn á sérsýningar í safninu en grunnsýningar verði alla vega um einhvern tíma ókeypis.

Við vitum að sú stefna er alþekkt erlendis, til að mynda víða í Bretlandi, að hafa ókeypis inn á söfnin. En menn hafa sagt á móti: Munu þær miklu sértekjur sem koma með aukinni aðsókn vega upp það tekjutap sem hlýst af aðgangseyrinum? Þarna rekast á rekstrarleg sjónarmið og menningarpólitísk sjónarmið. Við viljum að börnin okkar, unga fólkið og skólarnir hafi aðgang að menningararfinum okkar hvort sem það er í Þjóðminjasafninu eða Listasafni Íslands og víðar, en þá verðum við líka að hafa hér stofnanir sem standa undir sér. Þá þarf að taka á því þegar þar að kemur, þegar menn fara yfir þær rekstraráætlanir. Listasafn Íslands verður ekki eina ríkisstofnunin sem mun þurfa að standa frammi fyrir erfiðum og beiskum niðurskurði en óhjákvæmilegum engu að síður.