138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

aðgangseyrir að Listasafni Íslands.

241. mál
[14:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp því að þetta er auðvitað spurning um menningarpólitík og um aðgengi og hvernig við tryggjum það best. Ég legg áherslu á það í þessari vinnu allri, sem er auðvitað óhjákvæmileg því að allir þurfa að skera niður, að við getum sem best tryggt aðgengi skólafólks að söfnunum okkar áfram og við gerum það með einhverjum hætti, og um leið að aðgangseyrir, verði hann tekinn upp, sé hóflegur. Mér finnst sú leið sem Listasafn Íslands hefur verið að skoða, í raun fara bil beggja. Þar er um að ræða hóflegan aðgangseyri og hann er eingöngu miðaður við sérsýningar.

Ég held að það skipti miklu máli að við höldum umræðunni vakandi um þessi efni og þau gildi sem þar búa að baki.