138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

nemendur í framhaldsskólum.

366. mál
[14:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Á tímum sem þessum er mikilvægt að við fylgjumst vel með því hvernig ungu fólki vegnar í mjög erfiðu árferði. Þess vegna hef ég ákveðið að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra aðeins út í stöðu þess hóps.

Ég spyr:

1. Hversu margir nemendur sóttu um inngöngu í framhaldsskóla um síðustu áramót?

2. Hversu margir þeirra fengu synjun um skólavist?

3. Hversu margir nemendur voru skráðir í framhaldsskóla um síðustu áramót og hversu margir voru þeir um áramótin 2008–2009?

Ástæða þess að ég spyr um þetta og kannski sérstaklega um synjunina er sú að framhaldsskólar henta ekki öllum. Nú þegar ungt fólk, eins og allir aðrir, missir atvinnu er mikilvægt að við séum með úrræði fyrir hendi sem henta sem flestum. Þess vegna væri mjög athyglisvert að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún telur að það umhverfi sem er í menntamálum núna komi til móts við þarfir allra þeirra ungmenna sem eru án atvinnu í dag, mundu jafnvel vilja vera í vinnu eða nálgast einhver önnur úrræði en hið hefðbundna form framhaldsskólans.

Ég hef fengið viðbrögð úr samfélaginu og heyrt að margt ungt fólk á í verulegum erfiðleikum á Íslandi í dag. Það er svo sem ekkert nýtt. En í því erfiða efnahagsástandi sem við okkur blasir í dag er hætt við því að ástandið verði enn verra hjá stórum hópi ungs fólks. Þess vegna er mjög knýjandi að við fylgjumst með því hér á þinginu hver staða þessa þjóðfélagshóps er. Á tímum sem þessum ber okkur fyrst og fremst skylda til þess að horfa á unga fólkið, ungu kynslóðina. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvað hún hefur gert til þess að koma til móts við þann hóp — sem ég held að sé nokkuð stór í íslensku samfélagi í dag — sem er án atvinnu og framhaldsskólaformið hentar ekki. Það er mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða hugmyndir hún hefur í þessum efnum og hvað ráðuneyti menntamála hefur gert til þess að koma til móts við unga fólkið.