138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

nemendur í framhaldsskólum.

366. mál
[14:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann spurði um hversu margir nemendur sóttu um inngöngu í framhaldsskóla um síðustu áramót. Því er til að svara að það voru 2.745 nemendur sem sóttu um inngöngu í dagskóla í framhaldsskóla á vorönn 2010. Það er svipaður fjöldi og sækir að jafnaði um á þessum tíma árs, þ.e. fyrir vorönn, en þó heldur færri en sóttu um áramótin 2008/2009, en það var mjög mikil ásókn í framhaldsskóla á þeim tíma. Hins vegar er ekki inni í þessum svörum neitt um þá sem sækja sérstaklega í fjarnám, dreifnám eða kvöldskóla þar sem innritun í slíkt nám fer fram í hverjum skóla fyrir sig en ekki í gegnum sameiginlega innritunarkerfið. Það gæti verið ríflega þessi fjöldi.

Hv. þingmaður spyr hversu margir af þessum 2.745 fengu synjun um skólavist og er það nokkur fjöldi eða 472 umsækjendur. Ástæður fyrir þeirri synjun voru helstar þær að í einhverjum tilvikum var ekki fyrir hendi námspláss á þeim námsbrautum sem sótt var um, það var þá sérstaklega í starfsnámi eða verknámi þar sem er takmarkaður fjöldi námsplássa, eða þá að nemendur uppfylltu ekki skilyrði fyrir inntöku. Langflestir af þessum umsækjendum voru á höfuðborgarsvæðinu og aðallega var sótt um skólavist í verknámsskólum, svo sem Tækniháskólanum, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla. Ég hef ekki tölur um aldursskiptingu á þessum hópi en hins vegar liggur fyrir að við höfum veitt forgang og tryggt skólavist þeim sem eru undir 18 ára aldri og eiga rétt á skólavist samkvæmt lögum um fræðsluskyldu.

Hv. þingmaður spyr um hversu margir nemendur voru skráðir í framhaldsskóla um síðustu áramót og hve margir þeir voru um áramótin 2008–2009. Það er verulegur fjöldi nemenda í framhaldsskóla. Talning nemenda í skólum fer fram 15. október á hverju ári frá Hagstofunni. Tölurnar miðast því við þá dagsetningu. 15. október 2008 voru 30.148 nemendur í skólum, 15. október 2009 voru þeir 30.480. Það er auðvitað mikill fjöldi.

Hagstofan aldursgreinir ekki þessar upplýsingar en ég vil þó nefna að samkvæmt upplýsingum úr upplýsingakerfum okkar í ráðuneytinu er stærstur hluti þessa hóps 18 ára og yngri, þ.e. um það bil 37%, ríflega 27% á aldrinum 18–20 ára og síðan er verulegur fjöldi yfir tvítugu eða um það bil 35%. Það er því verulegur fjöldi fólks yfirleitt á hefðbundnum framhaldsskólaaldri sem sækir nám í framhaldsskóla.

Utan við þá tölu fólks sem ég hef þegar nefnt, þ.e. 2.475, sem sótti um skólavist og þá 472 sem ekki fengu inni, er sá hópur sem félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun hafa verið að sinna gegnum sérstakan samstarfssamning menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Vinnumálastofnun hefur tekið utan um þau ungmenni sem eru á atvinnuleysisskrá og boðið þeim sérstök námstilboð, annars vegar með sérstökum samningum hjá framhaldsskóla sem bætt hafa við plássum hjá sér og tekið við fleiri nemendum, og hins vegar í gegnum sérhönnuð námstækifæri sem hafa verið í boði síðan í febrúar. Það er þá hugsað sem styttra og óhefðbundnara nám. Ég tekið undir það sem hv. þingmaður kom inn á að lokum varðandi hvernig skólakerfi okkar mætir nemendum sínum. Auðvitað liggur það fyrir, og það á við um Ísland eins og önnur lönd, að það finna ekki allir nemendur nám við sitt hæfi í skólakerfinu. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér í gegnum árin af því að við ræðum mikið um brottfall og hvað við getum gert til að mæta brottfalli. Brottfall er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri en hins vegar hefur það verið, að okkur finnst, í meiri kantinum hér en annars staðar. Sumir vilja tengja það skorti á framboði á verknámi. Mikið hefur verið unnið á undanförnum árum að því að bjóða fram meira verknám en eigi að síður eru 84% allra námskeiða í framhaldsskólum á Íslandi bóknám, sem sýnir auðvitað yfirþyrmandi áherslu á bóknám. Ég held því að við verðum að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið, bæði með því að efla verknám en líka að auka hlut listgreina. Ráðuneytið hefur unnið í því og heldur áfram að vinna í því. Ég held að þetta snúist líka umtalsvert um viðhorf því að þrátt fyrir heilmikla pólitíska samstöðu um að efla og gera námsframboð fjölbreyttara virðist vera að viðhorfin sem reka fólk í hið hefðbundna bóknám virðast enn þá vera allsráðandi. Ég held að við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við getum breytt því, hvernig við getum hafið betur til vegs og virðingar annars konar námsframboð. Ég held að það sé málið til að mæta fleiri nemendum á forsendum þeirra.