138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

höfuðstöðvar FLUG-KEF ohf.

407. mál
[14:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Nú stendur yfir sameining tveggja félaga, Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf., samkvæmt lagabreytingu sem gerð var á Alþingi, og á að sameina þessi félög í opinbert hlutafélag sem heitir FLUG-KEF ohf. Ég hvet hæstv. ráðherra til að huga að þessu nafni, þetta er kannski ekki þjálasta nafnið. Þetta var nú framhjáhlaup, það var ekki tilgangur minn að tala um það.

Tilgangur félagsins er að annast rekstur og viðhald flugvalla út um allt land, uppbyggingu, rekstur fasteigna og aðra skylda starfsemi, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli, jafnframt að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þar með talið Fríhöfnina og annað þess háttar. Einnig er félaginu heimil þátttaka í félagi sem ætlað er að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæðum Keflavíkurflugvallar, svo fátt eitt sé nefnt.

Starfsmannafjöldi þessa félags er tæplega 700 manns og þar af eru um það bil 400 staðsettir á Keflavíkurflugvelli, 50–60 um allt land, á flugvöllum landsins, og síðan eru 100–150 í Reykjavík hjá Flugstoðum í alþjóðaflugstjórnarmiðstöðinni og á skrifstofu.

Það vekur athygli mína að í samþykktum félagsins í grein 1.2 segir að heimili félagsins er á Reykjavíkurflugvelli 101 Reykjavík. Það vekur furðu að ekki hafi verið nýtt tækifærið að færa eða láta þetta nýja félag vera með höfuðstöðvar sínar á Keflavíkurflugvelli þar sem starfsemin fer að mestum hluta fram. Nú er hæstv. ráðherra þekktur fyrir ötula baráttu sína fyrir því að færa störf, sérstaklega opinber störf, út á land. Ég fletti því upp mér til gamans að það var alla vega 300 sinnum sem orðið „landsbyggð“ kom fyrir í ræðum sem hæstv. ráðherra, þá þingmaður, hafði flutt. Til að mynda sagði hæstv. ráðherra, þá þingmaður, árið 1999 í umræðu um flutning mennta- og rannsóknarstofnana í landbúnaði, með leyfi forseta:

„Þetta er enn eitt dæmi um það hvað skal flytja hingað suður til Reykjavíkur og sífellt erum við landsbyggðarmenn að koma í varnarbaráttu í varnarleik. Skemmtilegra væri að koma einhvern tíma og geta spilað almennilegan sóknarleik.“

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort það sé ekki kominn tími á almennilegan sóknarleik í þessu máli nú þegar hæstv. ráðherra hefur tækifæri til. Í ljósi þess að stærsti hluti starfsemi nýja félagsins fer fram á Keflavíkurflugvelli, í ljósi atvinnuástandsins á Suðurnesjum, í ljósi fyrri yfirlýsinga og baráttu fyrir störfum á landsbyggðinni og í ljósi þess að þarna er verið að koma á nýju félagi en ekki verið að flytja gamalt, vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki upplagt að færa höfuðstöðvar hins nýja félags til Keflavíkurflugvallar?