138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

höfuðstöðvar FLUG-KEF ohf.

407. mál
[14:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Forseti. Nei. Ef kallað er eftir stuttu svari getur það verið svona stutt. Mér skilst að þetta sé stysta svarið sem veitt hefur verið á Alþingi og að það hafi verið fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Þorsteinn Pálsson, sem veitti það. En gamanlaust, virðulegi forseti, vegna fyrirspurnar hv. þingmanns sem hljóðar svo: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að færa höfuðstöðvar hins nýja opinbera hlutafélags FLUG-KEF ohf. til Keflavíkurflugvallar? er allt saman að mestu leyti rétt sem hún sagði. Fyrst varðandi nafnið, það er ekki hugsað til frambúðar. Þetta er bráðabirgðanafn og er hugmyndin að hið nýstofnaða félag muni efna til hugmyndasamkeppni, a.m.k. meðal starfsmanna ef ekki fleiri, um framtíðarnafn á félagið. Munum við eftir 1. maí, eftir að félagið tekur við, tryggja okkur réttinn og halda þessum nöfnum til haga, Keflavíkurflugvöllur ohf. og Flugstoðir ohf., Isavia og öllum þeim nöfnum, þannig að þau verða skráð þar sem þau eru.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, samþykktirnar eru ekki mjög gamlar. Þær eru bara frá því í lok janúar, enda áttum við að vera búnir að stofna félagið fyrir þann tíma. Þetta var samþykkt á stofnfundi 29. janúar 2010 og kemur fram í grein 1.2 að heimili félagsins er á Reykjavíkurflugvelli 101 Reykjavík. Hvers vegna er það þar en ekki einhvers staðar annars staðar? Það er kannski ekki til neitt eitt svar við því. Af hverju ekki bara á Akureyri? Þar er líka flugstarfsemi. (Gripið fram í.) Þetta snýst ekki um atvinnuástand á Suðurnesjum eða atvinnuástand á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að starfsmenn þessa félags vinna vítt og breitt um landið, flestir á höfuðborgarsvæðinu og þar með talið í Reykjanesbæ, sem ég tel vera hluta af höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Alþingi setti lög um flugvelli og lendingarstaði fyrir flugvélar, eins og það hét, með lögum nr. 24/1945, sem eru sennilega fyrstu lögin sem sett voru um þetta efni. Stofndagurinn var 1. júlí 1945 og félagið var með starfsemi í Reykjavík og hefur alltaf verið þar. Síðan var þessu félagi skipt í tvennt 2006, í Flugstoðir annars vegar og hins vegar Flugmálastjórn Íslands. Flugstoðir ohf. eru með heimili og varnarþing á Reykjavíkurflugvelli eins og hið nýstofnaða félag. Mér finnst í raun og veru þegar ég fór að hugsa meira um þetta eftir að þessi fyrirspurn kom fram að staðsetningin hafi verið ágætlega valin með tilliti til forsögunnar, Reykjavíkurflugvallar, Flugmálastjórnar, sem er upphafið að þessu, það sé bara eðlilegt. Þegar Flugstoðir ohf. voru stofnaðar 6. júlí 2006 var heimili fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli í Reykjavík valið af þeim sem það völdu á sínum tíma. Sama var sem sagt með FLUG-KEF ohf. en hins vegar hefur Keflavíkurflugvöllur ohf., frá stofndeginum 26. júní 2008, sameinað Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli með lögheimili í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að það skiptir í raun og veru engu máli hvar póstfangið er nema e.t.v. að pósturinn kemur þá á flugvöllinn í Reykjavík, í 101 Reykjavík í stað þess að fara suður til Keflavíkur.

Það voru kannski atriði sem voru áður en eru að hverfa út núna, þ.e. að Keflavíkurflugvöllur ohf. og svo Flugstoðir ohf. voru í tveimur aðskildum skattumdæmum þar til við tókum ákvörðun um að hafa einn ríkisskattstjóra. Nú erum við ekki í tveimur skattumdæmum en þetta var ákvörðunin, að hafa lögheimilið í höfuðborginni þar sem Flugmálastjórn hefur verið frá 1945 og ég held að það sé ákaflega vel staðsett þar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan varðandi nafnið. Það er ekki hugsað til framtíðar og vonandi kemur gott nafn út úr hugmyndasamkeppninni. Það sem ég vil árétta og mér fannst ekki alveg koma skýrt fram hjá hv. þingmanni er að starfsmenn þessa opinbera félags, hvort sem er fyrir eða eftir sameiningu félaganna tveggja, dreifast vítt og breitt um landið, þeir eru alls staðar að af landinu og stærsti hlutinn er auðvitað á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þeir skiptast á milli Reykjavíkur, Reykjanesbæjar, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar eða annarra staða. En félagið sem slíkt á heimili og varnarþing í Reykjavík, félagið sem slíkt greiðir ekki eitt eða neitt til sveitarfélagsins þannig að skattar og skyldur fara að sjálfsögðu til ríkisins.