138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

höfuðstöðvar FLUG-KEF ohf.

407. mál
[14:40]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir bryddaði upp á. Hún er að mínu viti mikilvæg. Hæstv. ráðherra talaði um að það væri ekki aðalatriðið hvar höfuðstöðvarnar væru, í Reykjavík eða á Keflavíkurflugvelli, en ég tel það hins vegar táknrænan gerning hvar þær eru í þessu tilviki. Almennt vil ég blanda mér í þessa umræðu með þeim hætti að segja að það er með ólíkindum hvað ríkisvaldið á síðustu árum hefur verið tregt til að færa ríkisstofnanir út á land þar sem þær eiga margar hverjar eðli starfsins vegna heima. Það er með ólíkindum að horfa til þess að á undanförnum árum er árangurinn ein stofnun og hún heitir Skógrækt ríkisins. Hún er austur á Fljótsdalshéraði og það er hæpið að hún verði þar áfram. (KÞJ: Þú gleymdir Vita- og hafnamálastofnun í Kópavogi.)