138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

höfuðstöðvar FLUG-KEF ohf.

407. mál
[14:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og nota þetta tækifæri og tek mér orð annars hæstv. ráðherra í munn sem oft byrjaði ræður sínar á að segja eitthvað á þessa leið: Heldur þóttu mér svörin nú snautleg. Að hæstv. ráðherra og hv. fyrrverandi landsbyggðartröll, leyfi ég mér að segja, Kristján L. Möller, segi í ræðustól á Alþingi að það skipti ekki máli hvar höfuðstöðvar stofnunarinnar eru, finnst mér vera forsíðufyrirsögn. Eins og ég sagði fór ég í gegnum ræðukerfi Alþingis og fyrirspurnir og annað og fann tæplega 300 ræður þar sem hæstv. ráðherra hvatti m.a. til þess að þessu væri öðruvísi farið og flutti ræður á svipuðum nótum og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson flutti áðan. Hér er t.d. kafli úr einni þeirri ræðu, fyrirspurn þar sem núverandi hæstv. ráðherra spyr hvernig þáverandi hæstv. ráðherra ætli að fylgja þessari úttekt eftir þannig að einhver störf flytjist út á land. Þá segir hv. fyrirspyrjandi Kristján L. Möller:

„Það er sannarlega þannig, herra forseti, að embættismennirnir á höfuðborgarsvæðinu halda mest í þessi störf og koma í veg fyrir að ýmislegt sé gert.“

Nú er ég ekki að tala fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur til Keflavíkur eða neitt slíkt. Ég er að tala um að höfuðstöðvar þessa nýja, opinbera fyrirtækis verði flutt til Keflavíkurflugvallar, sem ég bendi á að hefur líka haft lögheimili sitt og varnarþing þar örugglega svipað lengi og hæstv. ráðherra talaði um varðandi Reykjavíkurflugvöll. Ég man ekki ártalið en það var einhvern tíma í stríðinu sem þessi flugvöllur var byggður. Að hæstv. ráðherra finnist ekki skipta máli að höfuðstöðvar Keflavíkurflugvallar séu fluttar til Reykjavíkur, finnst mér vera dálítið dapurlegt. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að huga að þessu, ekki síst vegna þess að það skiptir máli huglægt séð hvar þetta er, (Forseti hringir.) líka þættir eins og starfsmannahald sem fylgir mikil starfsemi og skrifstofuhald. (Forseti hringir.) Það getur verið í Keflavík og yrði það ef varnarþingið væri 235 (Forseti hringir.) Keflavíkurflugvöllur.