138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

einkaréttur á póstþjónustu.

346. mál
[14:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Á sínum tíma var ákveðið að fresta gildistöku tilskipunar frá ESB um opnun póstmarkaða og einkaleyfi Íslandspósts á bréfum undir 50 g var framlengt til ársins 2011. Það var fyrst og fremst gert til þess að hægt væri að vinna að því að tryggð yrði alþjónusta fyrir alla þjóðina, þ.e. öll útnesin og landið í heild og að fólki, sama hvar á landinu það býr, yrði tryggð sú þjónusta sem það þarf á að halda. Þegar einkaleyfið verður afnumið þurfum við að tryggja að allir geti fengið póstinn sinn. Það er nokkurn veginn það sem þarf að gera.

Núna er liðinn nokkuð drjúgur tími síðan þessi ákvörðun var tekin og það líður að því að þetta afnám gangi í gildi, þ.e. 1. janúar 2011. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ljóst að afnámið muni taka gildi, þ.e. að það verði samkeppni í allri póstþjónustu og einkaleyfi til Íslandspósts á bréfum 50 g og léttari verði þá afnumið. Mér skilst að alla vega til langs tíma hafi stjórnendur Íslandspósts verið byrjaðir að undirbúa sig og að þeir gerðu ráð fyrir því að þetta afnám mundi ganga í gildi, þ.e. einkaleyfið yrði afnumið. Auðvitað eru aðrir aðilar á markaði líka byrjaðir að undirbúa sig fyrir þessa dagsetningu, 1. janúar 2011. Ég held til að mynda að starfsfólki Íslandspósts sé enginn greiði gerður með því að vinna í tveimur kerfum, þ.e. annars vegar í einkaleyfiskerfi sem byggir algerlega á einkaleyfi og hins vegar inni á samkeppnismarkaði. Ég held að því fyrirtæki sé ekki greiði gerður með þessu og það torveldi frekar starfsemi þess heldur en hitt.

Ég tel að það skipti miklu máli að menn stefni áfram að því markmiði að afnema einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 g 1. janúar 2011 og vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg ljóst að ráðuneytið hafi á þessum tíma unnið að því að tryggja alþjónustuna. Það er rétt að draga fram að þetta er ráðuneyti fjarskiptamála sem á að hafa reynslu í að tryggja alþjónustu. Við þekkjum öll hvernig alþjónustan var tryggð í fjarskiptamálum og þá ættu að vera hæg heimatökin að tryggja líka þessa alþjónustu í bréfaburði. Því vil ég spyrja: Er ekki alveg ljóst að samfylkingarráðherrann tryggi samkeppni á þessum markaði frá og með 1. janúar 2011 (Forseti hringir.) þannig að það verði virk samkeppni í þágu allra sem nýta þennan markað?