138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

einkaréttur á póstþjónustu.

346. mál
[14:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði í fyrri ræðu sinni að á sínum tíma hefði verið ákveðið að fresta gildistöku á afnámi einkaréttar póstsins. Það er alveg rétt. Sú ákvörðun var tekin af ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í og af ráðherra Sjálfstæðisflokksins. (PHB: Var einn í stjórn!)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort samfylkingarráðherrann muni ekki örugglega afnema einkaréttinn. Jú, hann mun gera það en það tekur þennan tíma. (Gripið fram í.) Í raun og veru er samfylkingarráðherrann, virðulegi forseti, að gera það sama og ráðherra Sjálfstæðisflokksins gerði, að fresta þessu til að fara í gegnum þá vinnu sem eftir er. Ég dreg ekki í efa (Gripið fram í.) að starfsmenn Íslandspósts hafi búið sig vel undir þetta en það er ekki nóg. Þetta snýst ekki bara um að Íslandspóstur sé undirbúinn. Þetta snýst að sjálfsögðu líka um það hvort kerfið er undirbúið og hvort við erum tilbúin. Til dæmis væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á því hvernig við eigum að tryggja alþjónustuna. Eigum við að gera það með fjármunum úr ríkissjóði eða með hækkun gjalda með svokölluðu jöfnunargjaldi?

Virðulegi forseti. Um annað sem kom fram í ræðu hv. þingmanns (ÞKG: Þú hefur haft þrjú ár til þess að athuga það.) — um annað sem hv. þingmaður sagði varðandi að ekkert væri gert í ráðuneytinu þá vil ég aðeins segja að það er greinilegt að berin sem hv. þingmaður borðar um þessar mundir eru mjög súr. Ég skil það vel eftir þá sneypuför sem stefna Sjálfstæðisflokksins hefur fengið hér á landi sem annars staðar. Þetta er súrt og þetta er erfitt. Það er erfitt fyrir sjálfstæðismenn að átta sig á því að það geta aðrir stjórnað landinu en þeir. Það getur vel verið að þetta komi einhvern tíma aftur, að sjálfstæðismenn starfi, en það verður ábyggilega langt í það. (ÞKG: Hvað ertu búinn að gera í þrjú ár?)