138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

tilfærsla verkefna frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

360. mál
[15:05]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með vilja hæstv. ráðherra í þessum efnum og kalla eftir efndum á því. Eins vil ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Auðvitað eiga opinber störf fyrst og síðast að vera þar sem verkefnin er að finna, þar sem verkefnin eru eðlileg og eru í héraði. Tregða ríkisvaldsins og reyndar allra stjórnmálaflokka á Íslandi í þessum efnum hefur verið afskaplega mikil við að færa opinber störf á þá staði þar sem verkefnin er að finna. Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að ef ný rannsóknastofnun um ferðir ísbjarna yrði stofnuð þá yrði hún í Reykjavík. Ef ný rannsóknastofnun um atferli hreindýra væri sett á laggirnar yrði hún í Reykjavík. Ef ný rannsóknastöð um nýtingu og veiðar á lunda yrði stofnuð yrði hún í Reykjavík. Svona hefur þetta verið áratugum saman á Íslandi. Grínlaust, gefum landsbyggðinni eðlilega hlutdeild (Forseti hringir.) í opinberri þjónustu til byggðasóknar og ekki síst (Forseti hringir.) byggðafestu.