138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

umhverfismerki á fisk.

251. mál
[15:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er tiltölulega einfalt. Við eigum auðvitað að taka upp íslenskt umhverfismerki, öll samtök í íslenskum sjávarútvegi vilja það og að því hefur verið unnið. Við eigum að hafna því að undirgangast MSC, Marine Stewardship Council. Það er margbúið að sýna fram á að það er ekki í þágu hagsmuna íslensks sjávarútvegs að taka upp þetta merki hér á landi.

Þetta umhverfismerki okkar, það er alveg rétt að vinnan við það hefur gengið of hægt. Það var þó engu að síður kynnt sérstaklega sem fullbúið merki á sjávarútvegssýningunni árið 2008. Nú er verið vinna að vottun þess eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greindi frá. Það er mjög mikilvægt að þessi vinna haldi áfram og hún á að gerast á forsendum sjávarútvegsins. Það er sjávarútvegurinn sem á að draga vagninn með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Aðalatriðið er að það verði vel að þessu staðið á íslenskum forsendum, að við tökum upp íslenskt umhverfismerki og hættum að daðra við þá hugmynd að taka upp MSC því það er ekki vilji íslensks sjávarútvegs.