138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

umhverfismerki á fisk.

251. mál
[15:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst alls ekki liggja í augum uppi að við eigum að vera með séríslenskt merki. Af hverju velja nágrannaþjóðir okkar MSC? (EKG: Ert þú að tala fyrir því?) Þær hafa tekið það upp á fjölmörgum vörum vegna þess að það merki er þekkt á mörkuðunum. Við höfum valið hina leiðina, alla vega hafa stjórnvöld hingað til valið hina leiðina, að aðstoða við gerð íslensks merkis. Fram kemur að það þurfi að kynna merkið og það er alveg rétt af því að þetta merki er ekki til. Enginn þekkir það, það þarf bara að kynna það. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hver á að kynna merkið? Munu íslensk stjórnvöld bera þann kostnað og hvað mun það kosta? Það hlýtur að kosta talsvert mikið markaðsstarf að kynna íslenska merkið. Ég vil einnig spyrja: Af hverju heldur hæstv. sjávarútvegsráðherra að nágrannalönd okkar, sem við erum í samkeppni við á mörkuðunum, velji annað merki?

Ég vil líka segja að mér er kunnugt um að nú þegar væri hægt að taka upp MSC-merkið. Mér skilst að vottunarstofan Tún geti tekið það út. Þetta merki er tilbúið og það væri hægt að taka það upp með mjög skömmum fyrirvara á íslenskar sjávarafurðir. Það er aukin krafa í samfélagi þjóðanna að fólk vill vita hvað það er að borða, að veitt sé á sjálfbæran hátt og eðlilega sé staðið að málum. Því er mikilvægt að við merkjum fiskafurðir okkar. Merkið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra veifaði var kynnt árið 2008 og núna er sagt að undirbúningur og vottun þriðja aðila sé á áætlun. Hvað þýðir það? Það styttist í að vottunarferlið hefjist. Ég vil fá að vita hvenær þetta vottunarferli eigi að vera búið, af því að mér finnst (Forseti hringir.) tíminn vera að hlaupa frá okkur, virðulegi forseti. Við höfum beðið svo lengi. Fyrst velja á þetta íslenska merki, (Forseti hringir.) sem ég reyndar efast um að sé rétt ákvörðun, (Forseti hringir.) hvenær sjáum við þá merkið í alvöru fara að virka?