138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Allt er það satt og rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir, að við höfum verið saman í viðræðum við Breta og Hollendinga, stjórn og stjórnarandstaða undanfarnar vikur, en nú hljótum við að vera sammála um að tíminn er runninn frá okkur. Við þurfum að taka af öll tvímæli um að þjóðaratkvæðagreiðslan verður að fara fram. Í dag er fimmtudagur. Þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram á laugardaginn. Ég vil fá skýrari svör frá hæstv. fjármálaráðherra um það hvort hann telur ekki útilokað annað en þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram. Eins varðandi hitt, hvort það sé ekki kristaltært vegna þess sem gerst hefur í þessari samningalotu, að það þjónar íslenskum þjóðarhagsmunum best að fólk mæti á laugardaginn og segi nei, því að það liggur fyrir að Bretar og Hollendingar eru tilbúnir til að nálgast samkomulag við okkur Íslendinga sem er miklum mun hagstæðara en lögin sem eru undir í þjóðaratkvæðagreiðslu.