138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

ríkislán til VBS og Saga Capital.

[10:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er mjög vinsæll í dag. Mig langar til þess að bera upp fyrirspurn varðandi VBS. Það bárust fréttir af því að VBS fjárfestingarbanki hefði farið þess á leit við FME að bankinn yrði tekinn yfir sem líklegast mun enda með beiðni um nauðasamninga.

Fyrir ári síðan ákvað hæstv. fjármálaráðherra að veita VBS og Saga Capital ríkisstyrk upp á 17 milljarða kr. Styrkurinn var í formi láns til sjö ára með neikvæðum raunvöxtum sem Saga Capital bókfærði strax sem hagnað upp á 7 milljarða kr. og VBS sem 10 milljarða hagnað. Forstjóri Saga Capital lýsti því reyndar yfir á þessum tíma að fyrirtækið þyrfti ekki á neinum ríkisstyrkjum að halda en fjármálaráðherra tók engu að síður þessa ákvörðun. Hún var umdeild á sínum tíma og fjölmargir, m.a. sú sem hér stendur, bentu á þá mismunun sem fólst í þessum aðgerðum.

Á sama tíma og gengið var hart fram gegn sparisjóðunum, þeir ýmist reknir í þrot eða lofað aðstoð gegn ströngum skilyrðum um niðurfærslu stofnfjár, aðkomu ríkisins að stjórn þeirra og ströngu eftirliti, átti ekkert slíkt við um VBS og Saga Capital. Saga Capital hafði meira að segja svigrúm til að afskrifa lán og ábyrgðir til tíu lykilstjórnenda um hálfan milljarð. (VigH: Rétt.)

Í umræðu um þennan gjörning fyrir ári síðan lýsti þáverandi formaður viðskiptanefndar, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, því yfir að þessum lánum fylgdu ströng skilyrði. Þannig væri hægt að gjaldfella lánin innan 30 daga ef bankarnir stæðu ekki við þau. Nú kemur fram í fréttum að VBS hafi ekki greitt vexti sem voru á gjalddaga þann 27. desember. Því spyr ég: Var lánið til VBS gjaldfellt? Greip ríkið til einhverra aðgerða til að tryggja hag sinn? Var einhvern tíma útlit fyrir að VBS gæti greitt þetta lán til baka? Er hugsanlegt að þetta mjög svo sértæka úrræði sem fjármálaráðherra greip til í fyrra hafi hreinlega verið hugsað til að bjarga Saga Capital, sem vill svo skemmtilega til að er í kjördæmi ráðherrans? Ef það hefði ekki verið of augljóst hefði þurft að styrkja þarna annað fyrirtæki utan kjördæmisins í leiðinni svona til að dreifa athyglinni. Þyrfti þá ekki að bókfæra 26 milljarða tapaða kröfu ríkissjóðs á hendur VBS sem kostnað við þennan 7 milljarða kr. ríkisstyrk til Saga Capital?