138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

ríkislán til VBS og Saga Capital.

[10:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í vinnslu er skýrsla, reyndar seinna en til stóð, um endurskipulagningu í fjármálakerfinu sem ætlunin hefur verið að leggja fyrir þing. Vegna þess hversu torsótt það verkefni hefur reynst og vegna þess að ekki er að fullu lokið vinnunni gagnvart sparisjóðunum hefur verið beðið með að klára þá skýrslu en hún mun koma hér á borð þingmanna þar sem farið verður rækilega í gegnum þessa þætti og betri tími gefst til að ræða þá við hv. þingmann.

Varðandi stöðu þessara tilteknu stofnana er væntanlega ljóst að þær hafa starfað á grundvelli tiltekinna undanþága eins og því miður stór hluti fjármálakerfis okkar hefur gert allt frá hruni. Það er síðan í höndum Fjármálaeftirlitsins eftir atvikum að framlengja slíkar undanþágur ef verið er að vinna úr málum og þannig hefur þetta þróast.

Ég þekki ekki nákvæmlega til þess hvernig samskiptum út af gjaldfellingarákvæðum lánanna var háttað en ég geri ráð fyrir því að menn hafi kosið að grípa ekki til slíks á meðan einhver von var í tilviki (Forseti hringir.) VBS að bankinn kæmist í gegnum sína erfiðleika.