138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

afnám verðtryggingar.

[11:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að vinda ofan af umfangi verðtryggingar í íslenska hagkerfinu, ég hef verið það lengi, sjálfsagt í ein 25 ár. Það er meinsemd í sjálfu sér hversu verðtrygging er fyrirferðarmikil í okkar hagkerfi. Hún skekkir hlutina og hún veldur því m.a. að ýmis hagstjórnartæki virka öðruvísi hér en þau gera almennt annars staðar. Ég held að þetta sé hins vegar ekki eitthvað sem hægt er að gera bara með einni aðgerð. Ég held að það sé óviðráðanlegt. Ég held hins vegar að það eigi að móta áætlun um það hvernig menn vinda ofan af verðtryggingunni, draga úr umfangi hennar, auka framboð af óverðtryggðum lánum til hliðar við verðtryggð, lengja lágmarkslánstímann sem þarf áður en heimilt er að verðtryggja lán og grípa til ýmissa slíkra aðgerða. Á hinn bóginn er ég ekki þeirrar skoðunar að það eigi að banna verðtryggða pappíra eða annað slíkt, enda þekkjast þeir mjög víða í sambærilegum löndum, en umfang þeirra í hagkerfinu er hins vegar allt annað og miklu meira. Ég sé t.d. ekkert að því að í skuldabréfum séu til flokkar bæði óverðtryggðra og verðtryggðra bréfa, að menn geti valið þar á milli um hvar þeir telja hagsmunum sínum betur borgið.

En það umfangsmikla verðtryggingarkerfi sem hér er þar sem nánast öll húsnæðislán, bæði frá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum eru verðtryggð og skuldbindingar eru verðtryggðar á móti, er allt of viðamikið og hefur þessi hamlandi áhrif í hagkerfinu eins og ég sagði. Af sjálfu leiðir að það er auðveldara að glíma við allar aðgerðir af þessu tagi ef verðbólga er lág og stöðug. Þá eru allt aðrar forsendur til þess. Þá er reyndar verðtryggingin sjálf minna vandamál líka vegna þess að hún skrúfar ekki upp lánin eða veldur miklum breytingum.

Ég hlýt því bara að endurtaka að það er svar mitt og afstaða að ég tel að það eigi að móta áætlun um það, að reyna að nálgast þetta svona, (Forseti hringir.) að vinna með markvissum hætti að því að draga úr umfangi verðtryggingarinnar.