138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[11:20]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er stigið mjög afdráttarlaust og ákveðið skref í jafnréttisátt með samþykkt þessa frumvarps. Að mínu mati eru menn allt of lengi í allt of mörg ár búnir að sýna mikla biðlund. Beðið er eftir hugarfarsbreytingu, beðið er eftir að atvinnulífið taki við sér sjálft. Ég tel að við séum búin að bíða allt of lengi eftir því.

Frú forseti. Ég vil líka geta þess við þessa atkvæðagreiðslu að fram undan er aðalfundahrina hjá öllum stóru félögunum. Mín skoðun er sú að ef í ljós kemur að þessi aðalfundahrina mun ekki skila fleiri konum í stjórnir fyrirtækja en þær eru í dag, tel ég að við eigum að ganga lengra og færa þennan frest framar ef menn taka ekki við sér núna á næstu missirum. Ég mun beita mér fyrir því í viðskiptanefnd þannig að þessi frestur færist fram til ársins 2011 eða 2012.