138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þegar ég hlusta á svör hæstv. heilbrigðisráðherra verð ég að segja að mér fannst a.m.k. í byrjun ræðunnar vera óskaplega lítið um svör um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum, en svo birtist aðeins aftur hv. þm. Álfheiður Ingadóttir í lok ræðunnar og svaraði skýrar. Það sem mér fannst hún vera að segja er nokkuð sem ég er mjög sammála. Ég er mjög sammála því að það þurfi að forgangsraða í heilbrigðisþjónustu. Það þarf að forgangsraða í þágu heilsugæslunnar. Miðað við hvernig hefur verið farið í niðurskurðinn núna hefur ekki verið forgangsraðað, heldur er skorið flatt, það er verið að skera niður ákveðna prósentu.

Við þurfum að fá skýr skilaboð. Við þurfum að fá skýra pólitíska leiðsögn frá stjórnvöldum. Það er hlutverk hæstv. ráðherra. Það er hægt að ná fram kerfislægum breytingum. Við getum farið sömu leið og nágrannalönd okkar þar sem við segjum að heilsugæslan sé það þjónustustig sem eigi að nýtast okkur best. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga og þar á að halda utan um heilbrigðismál fólksins í landinu. Þar er þjónustan ódýrust. Þetta gengur hins vegar ekki upp á Suðurnesjum.

Eins og ráðherrann minntist á er 2–3 vikna bið eftir að fá tíma hjá heimilislækni. Þetta er það sem maður heyrir fólk tala um. Það kvartar undan því að fá ekki tíma hjá heimilislækni. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur töluvert talað um valfrjálst tilvísanakerfi. Það er nokkuð sem ég tel að ráðuneytið þurfi tvímælalaust að skoða. Það þarf að efla heilsugæsluna. Við þurfum að fá fleiri heilsugæslulækna, heimilislækna, og ég tel að ráðherrann þurfi tvímælalaust að skoða hvort það sé möguleiki að leyfa hjúkrunarfræðingum í auknum mæli að greina einfaldari sjúkdóma og gefa út lyfseðla fyrir ákveðnar tegundir lyfja. Það væri (Forseti hringir.) marktækt dæmi um kynjaða hagstjórn, sem þessi ríkisstjórn hefur talað um, sem væri bragð að og ég hvet ráðherra til að sýna nauðsynlegan kjark og framsýni (Forseti hringir.) og bæta þjónustu við hið mjög svo góða samfélag á Suðurnesjum.