138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að hefja þessa umræðu hér. Hún er mjög nauðsynleg og það hefur líka komið í ljós að það er kannski ekki nægilega búið að vinna í málinu þótt vonandi sé nú verið að því. Niðurskurður er nokkuð sem við þurfum að láta ganga yfir okkur öll í landinu og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og heilbrigðisstofnanir almennt þurfa vissulega að gera það líka. Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru með áberandi lægri framlög pr. íbúa í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir. Hér eru um að ræða yfir 20.000 manns þannig að það skýrir ekki að fullu þó að það sé aðeins mismunandi sem er í pakkanum á hverjum stað. Það bendir margt til þess að reiknilíkanið sé ekki alveg rétt.

Heilsugæslan er grundvallarþjónusta og ég tek undir með ráðherra og öðrum sem hér hafa talað að hún er mikilvægust. Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eiga að starfa 17–18 heilsugæslulæknar miðað við íbúafjölda. Stöðugildin eru 8,6 og í raun eru þeir milli sex og sjö vegna þess að vaktafrí sem safnast upp vegna álags eru með þeim hætti að þeim fækkar stöðugt.

Það eru 18–20 manns sem komast að á dag í dagvinnu hjá hverjum lækni. Síðan bíða 100 manns og það eru tveir til þrír læknar sem sinna því fólki í kvöldvinnu. Þetta er afleitur vandi og hann er vegna þess, eins og hér hefur komið fram, að læknarnir eru allt of fáir. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið unnið í úrlausnunum á þessum vanda? Lausnirnar hafa nokkrar verið nefndar hér. Það hefur til að mynda verið nefnt að það þurfi að endurskoða reiknilíkanið til að finna fjármuni, það þarf hugsanlega að leyfa heimilislæknum að opna stofur eins og öðrum sérfræðingum, það þarf væntanlega að taka upp valkvætt tilvísanakerfi. Það má skoða hvort unglæknar eigi að fara þangað í meira mæli því að það er enginn heilsugæslulæknir búsettur á Suðurnesjum og með einhverjum hætti þarf að tengja þá við svæðið. Að lokum þarf auðvitað að skoða launastrúktúr og vinnutilhögun lækna því að það kerfi sem við búum við er galið. Aðgerða (Forseti hringir.) er þörf núna.