138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heillaóskir til litháísku þjóðarinnar.

431. mál
[12:03]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hingað upp til að lýsa því að ég styð þingsályktunartillöguna mjög eindregið. Ég tel að hún sé mjög vel við hæfi og það sé rétt að Alþingi óski litháísku þjóðinni til hamingju með 20 ára afmæli sjálfstæðisyfirlýsingar hennar og sendi sérstakar heillaóskir til litháísku þjóðarinnar. Tuttugu ár eru liðin og það hefur auðvitað mjög margt gerst á þeim tíma. Litháen og önnur Eystrasaltsríki eru að feta sig í átt að lýðræðisumbótum og eru að reyna að styrkja velferðarsamfélag sitt eins og unnt er þó að um tíma sé nú þar hart í búi eins og víðar.

Alþingi hefur ályktað nokkrum sinnum vegna þessa. Ég vil draga fram sérstaklega ályktunina frá 11. febrúar 1991 um málefni Litháens, þar sem kveðið var á um það að Ísland tæki upp stjórnmálasamband við Litháen. Þetta hafði mjög miklar og jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir öll Eystrasaltsríkin.

Sú er hér stendur hefur haft tök á því að heimsækja Litháen nokkrum sinnum, m.a. út af norrænu samstarfi og hitt marga Litháa, bæði þar og svo sem víðar í sambandi við norrænt samstarf. Það hefur afar oft komið fyrir að Litháar sem hitta Íslendinga þakka fyrir þennan stuðning. Þetta stendur hjarta þeirra nærri, þeir muna vel eftir þessu og þetta er alls ekki gleymt, sá stuðningur sem kom héðan frá Íslandi. Það snertir mann alltaf þegar Litháar gefa sig á tal við mann og taka þetta upp af fyrra bragði þegar þeir heyra að maður er frá Íslandi.

Mér finnst því mjög vel við hæfi að þetta sé gert og þakka hv. formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, fyrir það frumkvæði að hafa unnið að þessu máli í utanríkismálanefnd, en nefndin stendur öll að þessu, og ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þessar heillaóskir.