138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

endurskoðendur.

227. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur.

Í lögum um endurskoðendur frá 2008 er kveðið á um að endurskoðanda sé skylt að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af ásetningi eða gáleysi í störfum hans eða starfsmanna. Komið hefur í ljós að vátryggingafélög hafa ekki getað boðið endurskoðendum slíkar tryggingar, þ.e. vegna tjóns sem getur leitt af ásetningi. Er því lagt til með frumvarpinu að skylda endurskoðanda til að taka starfsábyrgðartryggingu fyrir þau tilvik verði felld niður. Eftir stendur að endurskoðanda ber að tryggja sig fyrir fjárhagstjóni sem kann að leiða af gáleysi í störfum hans. Jafnframt ber endurskoðandi, sbr. 27. gr. laganna, ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans veldur af ásetningi eða gáleysi.

Hv. viðskiptanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Guðlaugur Þór Þórðarson og Margrét Tryggvadóttir.

Undir nefndarálitið rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.