138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

endurskoðendur.

227. mál
[12:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum alveg sammála heyri ég í þessu máli. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir minntist á eitt dæmi. Annað dæmi kom fram þegar menn birtu lánabók eins bankans. Það er alveg óskiljanlegt hvernig bankinn gat lánað einstaklingum til að kaupa í bankanum og eina veðið voru hlutabréfin. Ef það er ekki endurskoðanda að benda á slíkt þá hlýtur einhver annar að eiga að gera það þannig að það verði gert með áþreifanlegum hætti, bara svo eitt dæmi sé tekið. Ég velti því fyrir mér vegna þess að endurskoðendur hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Þeir eiga í rauninni að vera ákveðinn öryggisventill. En kannski hefur þetta þróast á þann veg — ekki bara á Íslandi, þessi umræða hefur verið í Bandaríkjunum og hefur komið upp áður — að endurskoðendafyrirtæki hafa talið það vera gagnrýnisvert að þau hafi jafnvel verið með ráðgjafarfyrirtæki líka á sínum snærum, þau höfðu mikilla viðskiptahagsmuna að gæta, að halda stórum og miklum viðskiptum við fyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur. Sú staða hefur kannski orðið til þess að fyrirtækin hafa ekki verið jafnhörð á sínum prinsippum eins og þau ættu að vera. Það getur verið einn þátturinn í þessu.

En stóra einstaka málið er að við verðum að geta treyst aðila eins og endurskoðendum til að upplýsa okkur, upplýsa hluthafa, um hvað er að gerast og gera athugasemdir við það ef menn eru að fara í einhverjar æfingar. Það dæmi sem hv. þingmaður nefndi er gott dæmi um það að maður mundi ætla það út frá heilbrigðri skynsemi að endurskoðendur ættu að koma inn í það og neita að skrifa upp á slíkt. (Forseti hringir.) Því miður er hægt að benda á margt fleira.