138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, og hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir þessa tillögu til þingsályktunar. Ég fagna vandaðri umræðu um gjaldeyrismál þjóðarinnar vegna þess að ég held að þetta sé eitthvert allra brýnasta málið sem við þurfum að takast á við um þessar mundir.

Mig langar að spyrja flutningsmann um hvort það sé innifalið í hennar skilningi á þessari úttekt að lagt er mat á hvaða hlut krónan átti í kreppunni eða hruninu sem við stöndum frammi fyrir, vegna þess að það er mitt mat að krónan hafi ýkt hana gríðarlega mikið. Er það þá innifalið í hennar skilningi á þessari beiðni að það verði athugað sömuleiðis?

Árið 2001–2008 var gengið of hátt skráð í þessu landi og það vann gegn hagsmunum útflutningsgreina sem veiktust og þurftu að skuldsetja sig. Nú er gengið of lágt skráð með tilheyrandi áhrifum á innflutning og að laun á Íslandi, hjá íslensku verkafólki eru lág. Fólk flyst þess vegna til útlanda í miklum mæli. Að mínu mati er krónan kannski það sem veldur heimilunum og fyrirtækjunum hvað mestum vanda í dag. Hrun bankakerfisins kemur illa við ríkissjóð en krónan og verðbólguskotið sem fylgdi hruni krónunnar hafði kannski hvað mest áhrif á heimilin. Það er minn skilningur að minnsta kosti.

Við erum sammála um að stöðugt efnahagskerfi og trú viðskiptalanda á Íslandi er forsenda þess að þjóðin geti byggt upp atvinnulíf til að skapa verðmæti í þessu landi og að sveiflur ógni fyrirtækjum og einstaklingum. Ég sé þessa tillögu sem mikilvægt innlegg í að við skoðum alla þá kosti sem eru í stöðunni.