138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:28]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki gera ágreining við hv. þingmann í þessum málum vegna þess að hugmyndin er einmitt sú að við köllum til öll þessi fjölbreyttu sjónarhorn og vegum þau og metum. Þegar talað er um að krónan vegi að íslenskum heimilum má heldur ekki gleyma því að t.d. í ýmsum ríkjum Evrópusambandsins þar sem evran hentar illa sem gjaldmiðill bitnar það mjög illa á heimilum þeirra landa og fjölskyldum og einstaklingum, ekki síst vegna gríðarlega mikils atvinnuleysis. Þarna er líka lína sem við verðum að ákveða til framtíðar vegna þess að þegar maður hefur fastan gjaldmiðil, stóran gjaldmiðil sem ekki hentar endilega og sveiflast ekki í takt við það hagkerfi sem þar ríkir, getur atvinnuleysi orðið sú jafna sem sveiflast miklu meira til og frá. Það er líka gríðarlega stórt mál sem við verðum að taka inn í reikninginn því að markmið okkar til frambúðar hlýtur að vera að stuðla að fullri atvinnu í landinu.