138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:30]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu sem er ef ég man rétt í samræmi við kosningaloforð okkar Vinstri grænna, alla vega talaði ég mjög mikið um það í kosningabaráttunni að við þyrftum að gera úttekt á gjaldmiðilsmálum. Hér er komin þingsályktunartillaga sem greinir mjög vel hvað það er sem við þurfum að skoða þegar verið er að meta hvort við eigum að taka upp nýjan gjaldmiðil og ef við tökum ákvörðun að við þurfum nýjan gjaldmiðil, hvað það er sem skiptir máli.

Eins og kom fram fyrr í umræðunni gagnast krónan okkur vel í dag þar sem hún er mjög veik, sumir segja að hún sé allt of veik, a.m.k. ef maður skoðar raungengi krónunnar eða hvað kostnaður fyrirtækja er. Hann er mjög lágur í samanburði við samkeppnislöndin, sem þýðir að sama skapi að heimilin hafa mjög lítinn kaupmátt, sérstaklega hvað varðar að kaupa innfluttar vörur.

Hvort krónan sé of lág núna og muni bara styrkjast er umdeilt. Ég tel að hún muni falla um leið og gjaldeyrishöftin verða afnumin. Ástæðan er ekki sú að raungengi sé of hátt heldur vegna þess að spákaupmenn bíða eftir að við afnemum gjaldeyrishöftin og munu leika sér með gengi krónunnar þannig að það henti þeim sem best.

Við höfum séð hversu máttugir þessir spákaupmenn eru. Fyrir bankahrunið voru það íslenskir spákaupmenn fyrst og fremst, svokallaðir bankamenn, sem tóku stöðu gegn krónunni en pössuðu sig á því að endurlána íslenskum heimilum gjaldeyrislánin sem þeir höfðu tekið áður en þeir tóku stöðu gegn krónunni. Þær aðgerðir, þessi stöðutaka varð til þess að gengið féll mjög mikið á skömmum tíma, um allt að 80% frá því að bankarnir hrundu ef við tökum t.d. evruna sem dæmi og enn meira ef við tökum japanska jenið eða svissneska gjaldmiðilinn. Það að halda áfram að vera með krónuna felur í sér ákveðna áhættu þegar það er orðið tímabært að afnema gjaldeyrishöftin, ekki síst í ljósi þess að flest heimili eru með verðtryggð lán. Ef gengið fellur við afnám gjaldeyrishaftanna mun verðlag hækka og sú hækkun fara inn í höfuðstól lána, höfuðstól sem hefur nú þegar hækkað að meðaltali um 25% og mörg heimili eiga í erfiðleikum með að standa undir.

Ég get því ekki séð hvernig við eigum að halda áfram með þennan gjaldmiðil án þess að afnema a.m.k. verðtrygginguna, en ég held að það eitt og sér muni ekki duga til því að krónan er gjaldmiðill fyrir mjög smátt hagkerfi og það þarf ekki mjög efnaða spákaupmenn, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, til þess að fella gengi krónunnar ef það hentar þeim.

Ég hef margoft velt því fyrir mér hvaða gjaldmiðill mundi henta okkur best við núverandi aðstæður og hef m.a. eins og margir stjórnarliðar velt evrunni fyrir mér. En vandamálið við upptöku evrunnar er í fyrsta lagi að það mun taka okkur að mati fjármálaráðuneytisins 34 ár að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Við höfum fengið pólitísk skilaboð um að við þurfum að fara hina eðlilegu leið að því að taka upp evru, sem þýðir þá að uppfylla þessi skilyrði. Síðan er vandamál sem margir hagfræðingar hafa bent á, þ.e. að hagsveiflur hér á landi og á evrusvæðinu eru ekki samhverfar, þ.e. hagvöxtur breytist ekki á sambærilegan hátt við það sem gerist að meðaltali á evrusvæðinu, sem þýðir t.d. að þegar hagvöxtur minnkar skyndilega mikið munum við vera með allt of hátt gengi. Ef við getum ekki notað gengið þurfum við að aðlaga hagkerfið með því að láta fyrirtækin segja upp fólki, eða með auknu atvinnuleysi. Þetta höfum við einmitt verið að sjá í þeim löndum sem hafa átt í vandræðum, ég mundi ekki segja vegna fjármálakreppu heldur vegna mikillar útlánastarfsemi bankanna, t.d. Írland, eða útlánaþenslu ríkissjóðs eins og á Grikklandi.

Annar gjaldmiðill sem hefur líka verið svolítið í umræðunni og ég hef skoðað er kanadíski gjaldmiðillinn. Mér skilst að Íslendingum hafi margoft boðist að taka þann gjaldmiðil upp. Hann hentar enn síður en evran. Það er afskaplega lítil samsvörun milli hagsveiflna hér á landi og í Kanada, því miður, þar sem það virðist vera pólitískur vilji til þess að við tökum upp þann gjaldmiðil.

Síðan hef ég aðeins skoðað hvernig það mundi henta íslenska hagkerfinu að taka upp norrænan gjaldmiðil. Margir hafa verið því fylgjandi að komast að samkomulagi við Norðmenn um að taka upp norska krónu. En þar er sama vandamálið og með evrusvæðið, hagvöxtur í Noregi breytist ekki nógu líkt því sem hefur verið hér á undanförnum árum. Við mundum því aftur vera að öllum líkindum með of sterkan gjaldmiðil í niðursveiflu og kannski jafnvel of veikan gjaldmiðil í uppsveiflu sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveginn. Hann er sú stoð sem við þurfum að styðja okkur við í dag eða treysta á.

Það er aðeins einn norrænn gjaldmiðill sem kæmi til greina, það er sænska krónan. Það eru sem sagt meiri tengsl með hagþróun þar í landi og hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þess má geta að sænska krónan er einmitt í dag einn veikasti gjaldmiðillinn á Norðurlöndunum. Út frá hagfræðilegri skoðun mundi ég álykta í dag að við ættum að taka upp sænska krónu. En það er ekki nóg að nota efnahagsleg rök fyrir upptöku gjaldmiðils, við þurfum líka að ná sátt, pólitískri sátt og samningum við viðkomandi stjórnvöld, ekki síst seðlabankann í viðkomandi landi. Það hefur ekki reynst vera mikill áhugi í Svíþjóð fyrir upptöku sænsku krónunnar hér á landi. Það getur m.a. stafað af því að ekki hefur verið gerð nein formleg úttekt á kostum og göllum þess að við tökum upp sænska krónu. Vonandi verður í þessari úttekt litið til þess möguleika að taka upp sænska krónu.

Ég vil að lokum geta þess að fram kom á sameiginlegum fundi viðskiptanefndar, efnahags- og skattanefndar og fjárlaganefndar að Seðlabankinn væri að undirbúa úttekt á möguleikum okkar um upptöku á nýjum gjaldmiðli. Þessi þingsályktunartillaga mun því þrýsta enn frekar á að slík úttekt verði kláruð sem allra fyrst.