138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér athyglisverða tillögu til þingsályktunar um úttekt á gjaldmiðilsmálum og ég vil lýsa því strax yfir að ég er hlynntur þessari tillögu og tel að hún gæti orðið mjög gott innlegg, það væri gott að fá svona úttekt á framtíðarkostum Íslands í gjaldeyrismálum.

Það er eitt sem menn hafa kannski ekki rætt nægilega mikið í sambandi við gjaldmiðilsmál og það er að Íslendingar eru með tvo gjaldmiðla. Í þessu pínulitla landi erum við með tvo gjaldmiðla, annar er króna og hinn er verðtryggð króna. Verðtryggð króna var að sjálfsögðu tekin upp út úr neyð, vegna þess að menn gættu ekki að því að hafa sparifé alltaf á raunvöxtum. Spariféð var með neikvæðum raunvöxtum í ein 20 ár, frá 1950 til 1970, eða jafnvel lengur og með þeim hætti var flutt óhemjumikið fjármagn frá þeim sem fylgdu dyggðinni að spara og fresta neyslu og neita sér um eitt og annað til hinna sem skulduðu. Gífurlegir fjármunir voru fluttir frá sparifjáreigendum til skuldara og olli það mikilli eignaaukningu hjá þeim sem áttu kost á því að taka lán. Þá var eftirspurn eftir lánum nánast takmarkalaus.

Ef menn ætla að taka upp nýja mynt þá þurfa þeir að vera búnir að laga þetta vegna þess að verðtryggingin gildir áfram. Ef menn taka upp evru þá er bara verðtrygging á evru. Allir þessir samningar detta ekkert úr gildi. Menn geta ekki látið sér detta það í hug. Þannig að ég legg nú til að menn fari fljótlega að stefna að því að afnema verðtrygginguna en um leið þurfa þeir að passa upp á það og gæta þess að sparifé sé alltaf með jákvæðum raunvöxtum, alla vega yfir lengri tímabil heldur en sex, sjö mánuði. Sem stendur er óverðtryggt sparifé á Íslandi með stórlega neikvæðri ávöxtun. Það er kannski 6 til 7% verðbólga í dag og hæstu vextir í bankakerfinu eru um 6 til 7%, svo borga menn af því skatt. Það er að segja, menn eru að tapa með því að spara og borga svo skatt ofan á tapið og það er búið að hækka skattinn. Þannig að það er ráðist enn frekar á spariféð, þ.e. það óverðtryggða. Þetta þurfa menn að laga.

Það er ljóst að önnur mynt mundi þýða það að sveigjanleiki íslensku krónunnar sem hér hefur verið nefndur hverfur og upp kemur agi sem getur orðið ansi leiðinlegur fyrir Íslendinga, að menn geti ekki bara sólundað og eytt í einhverri neyslugræðgi, heldur verða menn að eiga fyrir því sem þeir eyða. Gott dæmi um þetta var peningamálastefna Seðlabankans, sem við ræðum reyndar á eftir utan dagskrár, en hún bjó til jöklabréf. Hún dældi inn erlendu fé frá lágvaxtalöndum eins og Sviss og Japan, útlendingar tóku þar lán með kannski 4% vöxtum og breyttu í krónur og fengu 12% vexti á bankainnstæðu á Íslandi. Þannig dældust inn peningar, gengið styrktist eins og menn þekkja og verð á jeppum og flatskjám og ferðalögum varð mjög lágt og Íslendingar fóru á flug í neyslu, sem var akkúrat öfugt við það sem peningamálastefnan átti að gera. Háir vextir eiga að takmarka neyslu, en stefnan bjó til neyslu með þessum hætti.

Sumir hafa veifað því að ganga í Evrópusambandið sem töfrasprota Harrys Potters og segja að þá lagist allt saman, ég held meira að segja að sólin fari að skína hér á nóttunni og ég veit ekki hvað — hún gerir það reyndar á sumrin. Maastricht-skilyrðin gera það að verkum og skuldsetning Íslands eftir hrunið, m.a. Icesave sem Evrópusambandið er búið að þvinga okkur til að taka upp með einum eða öðrum hætti, — ég ætla að vona að það verði miklu minna heldur en til stóð hjá Evrópusambandinu — er orðin þvílík að við munum ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrr en eftir áratugi. Kannski verða það ekki 35 ár heldur bara 27 ár eða eitthvað svoleiðis en það verður mjög langt í það.

Menn hafa rætt hér ýmsar myntir. Ég hef nefnt það áður að norska krónan og norskt efnahagslíf eru á margan hátt lík þeim íslensku. Norðmenn flytja út fisk, sem sagt matvæli, og orku og hvort tveggja flytja Íslendingar líka út. Við flytjum út orku í formi áls og flytjum út fisk eins og Norðmenn. Þannig að ég hugsa nú að þegar vel er skoðað sé ekki langt á milli í hagvexti og hagþróun.

En ég held, frú forseti, að við þurfum algjörlega að skipta um stefnu. Mörg heimili hafa áttað sig á því. Það er nefnilega þannig að skuldir allra þjóða í heiminum eru að meðaltali núll. Meðalskuldir allra þjóða eru núll. Meðalskuldir allra einstaklinga eru líka núll. Því til þess að einhver geti eytt, þarf einhver annar að spara — svona burtséð frá seðlaprentun og öðru slíku sem getur líka haft áhrif — en það þarf alltaf einhver að spara. Íslendingar hafa nú í áratugi, í hálfa öld, eytt sparifé annarra þjóða, það hefur ekki myndast hér innlendur sparnaður. Reyndar er skyldusparnaður í gegnum lífeyrissjóðina mjög mikilvæg undantekning frá því en Íslendingar hafa yfirleitt eytt meiru en þeir afla. Það er mjög hættulegt til lengri tíma og gerir menn ósjálfstæða. Dæmigert var að þegar Icesave-málið kom upp voru Íslendingar gjörsamlega ósjálfbjarga, ekki vegna þess að þeir hefðu ekki styrk heldur vegna þess að þeir skulduðu úti um allt. Þeir voru svo háðir því að fá lán áfram til að borga upp lánin sem voru á gjalddaga að þeir gátu sig eiginlega hvergi hreyft.

Ég bendi á það að lönd eins og Taívan, Kína og Þýskaland, sem eiga mjög þykka gjaldeyrisvarasjóði, mundu aldrei lenda í svona vandræðum. Þetta er bara eins og með einstaklinga, ef einstaklingur skuldar miklu meira en hann á þá er hann alltaf ósjálfstæður, hann getur sig hvergi hreyft, hann er háður lánardrottnum sínum. Þess vegna held ég að við Íslendingar þurfum núna að venda okkar kvæði í kross og fara að spara, eiga fyrir útgjöldum svona að meðaltali, ég undanskil þá húsnæði. Menn eiga aldrei að kaupa bíl með láni, aldrei. Menn eiga ekki að fara í utanlandsferð með láni, aldrei, það er nú alveg fráleitt. Þannig að menn þurfa að snúa þessu við. Einstaklingar þurfa að spara. Fyrirtæki þurfa að spara, þau þurfa að vinna miklu meira með áhættufé heldur en með lánsfé og ríki og sveitarfélög þurfa líka að fara að spara.

Þegar menn spara og leggja fyrir eru þeir sjálfstæðir, þá er enginn vandi að taka upp einhverja erlenda mynt. Við þurfum hvorki að tala við kóng né prest, við bara flytjum hana inn af því að við eigum hana. Það er bara málið. Ef við erum búin að safna sjóðum í útlöndum í staðinn fyrir að skulda úti um allt, þá eigum við sjóðina og hvort sem við viljum taka upp norska krónu eða evru eða hvað sem okkur dettur í hug, þá bara flytjum við það inn, við spyrjum hvorki kóng né prest um það og förum að nota evru, norska krónu, sænska krónu, kanadískan dollar eða hvað sem er og þurfum ekkert að spyrja seðlabanka viðkomandi lands af því að við eigum fyrir þessu. Núna þurfum við að spyrja af því við að eigum ekkert í útlöndum. Þetta er munurinn.

Menn þurfa sem sagt að taka upp gamlar dyggðir, sem eru sparsemi og ráðdeildarsemi, og hverfa frá neyslugræðginni sem hefur plagað þetta land í áratugi, sveitarfélög, ríkissjóð, einstaklinga og fyrirtæki. Menn þurfa að hverfa frá þessu og taka upp allt aðra stefnu. Mér sýnist, frú forseti, að heimilin í landinu skilji þetta. Þau skildu þetta þegar hrunið varð því þá varð gífurleg aukning á innlánum. Þrátt fyrir lækkandi laun og atvinnuleysi hefur orðið gífurleg aukning á innlánum. Það var dálítið merkilegt, ég hef spurt að þessu núna í eitt eða tvö ár hver aukningin hafi verið og ég fæ ekki svar, það vantar upplýsingar um það. Ég ætla nú að hamra á því að ég fái að vita hvað Íslendingar eru að spara. En það syndir allt í peningum í bankakerfinu. Þar eru um tvö þúsund milljarðar á lausu, þannig að einstaklingurinn er farinn að spara. Nú stendur upp á ríkið og sveitarfélögin og fyrirtæki landsins sem flest eru í ríkiseigu eða í eigu kröfuhafa að þau breyti um stefnu og fari að eiga fyrir því sem þau eyða og séu ekki með einhverjar tilfæringar eins og tónlistarhús eða Icesave sem ekki er bókað. Sundlaug á Álftanesi, hún var ekki bókuð. Egilshöllin, hún var ekki bókuð. Við þurfum að fara að gera okkur grein fyrir því hvað við raunverulega skuldum og passa vel upp á það að skulda ekki meira en við eigum.