138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja máls á peningamálastefnunni. Á fund okkar í efnahags- og skattanefnd, viðskiptanefnd og fjárlaganefnd kom forusta Seðlabankans og flutti skýrslu peningastefnunefndar. Við áttum þar gagnlegar umræður og ég held að almennt megi segja að þær breytingar sem gerðar voru bæði á forustu bankans og með því að setja upp peningastefnunefndina hafi verið farsælar og orðið til þess að auka trúverðugleika okkar almennt í efnahagsmálum. Það var eitt af þeim mörgu mikilvægu skrefum sem við þurfum að taka til að endurheimta trúverðugleika okkar á því sviði.

Um leið og það er mikilvægt að við höldum áfram á vaxtalækkunarbrautinni, því að vissulega hafa vextir lækkað hratt og verða að halda áfram að lækka ef hér eiga að skapast almenn skilyrði fyrir nýfjárfestingu og vexti í atvinnulífinu sem drífi hjól efnahagslífsins á ný í gang, er um leið mikilvægt að ekki verði gengið svo hart fram að hér megi ekki takast að losa um gjaldeyrishöftin. Það er gríðarlega brýnt fyrir okkur að brjótast út úr þessu haftaumhverfi eins fljótt og mögulegt er til að við festumst ekki í viðjum haftanna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir efnahagsþróunina hér til lengri tíma. Um leið kunna auðvitað að vera þeir tímar fram undan að sjálf efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem Seðlabankinn byggir peningamálastefnuna á þurfi að koma inn til endurskoðunar. Við höfum ekki fengið nauðsynlega endurskoðun á efnahagsáætluninni í samstarfi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það eru vissar blikur á lofti sem benda til þess að svo kunni að þurfa að verða.