138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og málshefjandi, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, benti á er ekki nóg með að þessir fráleitlega háu vextir Seðlabankans dragi hér úr allri nýsköpun í atvinnulífinu og fjárfestingum, heldur kosta þeir líka ríkið gríðarlegar upphæðir. Það væri fróðlegt að heyra hjá hæstv. viðskiptaráðherra hver kostnaður íslenska ríkisins er við að halda uppi þessu fráleita vaxtastigi, þessu vaxtastigi sem hefur í raun á allan hátt neikvæð áhrif á framvindu íslenskra efnahagsmála þegar við þurfum svo sannarlega að nálgast hlutina með öðrum hætti.

Hvers vegna er þetta með þessum hætti? Jú, annars vegar vegna þess að menn hafa kosið að fylgja hér ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ráðgjöf sem hefur hvergi nokkurs staðar í heiminum þar sem sjóðurinn hefur áður komið að virkað og hitt er að sjálfsögðu þessi pólitískt skipaða peningastefnunefnd sem samanstendur af hópi alþjóðakrata sem forsætisráðherra raðaði þarna inn í bankann eftir alveg ótrúlegan hamagang við að koma út fyrri stjórnendum bankans. Svo segist þessi sami hæstv. forsætisráðherra ekki geta haft neina skoðun á starfsemi bankans núna. Þessi peningastefnunefnd hefur helst afrekað það annars vegar að vera helstu talsmenn þess að greiða hér út alveg gríðarlegar upphæðir í erlendri mynt a.m.k. næstu 15 árin án þess að neitt komi á móti. Fátt veikir nú krónuna meira en það. Hitt afrekið er að halda uppi þessum fráleitlega háu vöxtum.

Þessi nefnd hefur sem sagt gert það tvennt sem hefur reynst hvað skaðlegast á því sviði sem hún á að starfa. Því hljótum við að vera komin á þann stað að við séum aftur farin að spyrja okkur hvort ekki þurfi einhverja leiðsögn frá stjórnvöldum í málefnum Seðlabankans.