138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Trúverðugleiki íslenskrar peningastefnu beið mikinn hnekki við bankahrunið. Reyndar er það mín skoðun að stefnan hafi orðið gjaldþrota löngu fyrir hrun enda var verðbólgustigið hátt, vextir háir, Íslendingar tóku lán í útlöndum og við fengum jöklabréf inn í landið. Við sitjum uppi með afleiðingar þessa, of hátt vaxtastig, gjaldeyrishöft og veika krónu. Það mun taka tíma að endurreisa trúverðugleikann, en á meðan mun áhættuálag á íslenska krónu verða hátt. Vonin um afnám verðtryggingar er óraunhæft og við erum í raun og veru með tvær krónur í þessu landi, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margoft talað um.

Að teknu tilliti til þessara staðreynda er það mat margra að besti kosturinn til langs tíma sé að taka upp nýja mynt, hún muni færa okkur stöðugleika, lægri vexti og ég ítreka, það sem mér finnst mestu máli skipta, við munum lækka kostnað af fjármagni fyrir íslenskt atvinnulíf. Mikið væri gott ef við gætum búið við þá stöðu í dag. Þar af leiðandi tel ég að peningastefna okkar til frambúðar felist í upptöku nýrrar myntar og ég skora á aðra stjórnmálaflokka að svara því hvaða leið þeir telji þá bestu til frambúðar. Besta leiðin til skemmri tíma er kannski sú að ljúka þessu Icesave-máli sem allra fyrst. Þá munum við væntanlega auka fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Þá munum við fá inn erlent fjármagn (Gripið fram í.) til að geta fjárfest upp á nýjan leik. Við munum geta styrkt gjaldeyrisvaraforðann, (Gripið fram í: Ætlarðu að segja já?) lækkað vexti og afnumið höft í framhaldinu.