138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Stjórnarflokkarnir halda uppteknum hætti og reyna að skýla sér á bak við Icesave í öllum þeim málum sem þeir hafa klúðrað hingað til. Það er allt Icesave og stjórnarandstöðunni að kenna. Mig langar bara að minna á það hverjir eru hér við stjórn. Hér er við stjórn ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, þykist vera vinstri stjórn, stjórn jafnaðarmanna, en gerir allt þveröfugt við þær hugmyndir enda hefur komið í ljós að aðspurðir virðast mjög margir þingmanna, a.m.k. Samfylkingarinnar, ekki einu sinni hafa þekkingu á því hvað hugtakið jafnaðarmennska þýðir. Kannski er ekki von að vel fari.

Mig langar að tæpa á fleiri atriðum varðandi Seðlabankann og peningamálastefnuna. Eitt af því sem að er þar er t.d. að lánamál ríkisins voru færð inn í Seðlabankann. Útgáfa á skuldabréfum ríkisins er í Seðlabankanum. Á sama tíma stýrir Seðlabankinn vaxtastigi í landinu. Þarna eru menn með á sama stað tvö algjörlega ósamrýmanleg markmið. Þetta er af hálfu OECD talið óásættanleg meðferð lánamála ríkissjóða og gengur þvert gegn því sem þeir kalla „best practices“ þar. Á þetta hefur margoft verið bent, en hér er skellt skollaeyrum við. Það er m.a. út af svona vinnubrögðum sem ríkissjóður Íslands nýtur ekki trausts. Lánamál ríkisins eru ekki í faglegum farvegi. Þau eru í eins ófaglegum farvegi og þau geta verið að mati OECD. Menn ættu að leiða hugann að því áður en þeir reyna að skýla sér á bak við einhverjar aðrar afsakanir.

Í stjórnsýslunni er mjög margt sem ekki getur talist faglega eðlilegt. Það stafar af mörgu en þetta er eitt af því sem þarf að koma í lag ef menn ætla einhvern tímann að gera sig trúverðuga á alþjóðavettvangi. Allt pex hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um Icesave mun ekki breyta neinu (Forseti hringir.) um trúverðugleika Íslands og gera hann bara verri ef eitthvað er.