138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[14:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Með því að hefja þessa umræðu gerðum við heiðarlega tilraun til að ná fram samstöðu á Alþingi Íslendinga gagnvart einu stærsta úrlausnarvandamáli sem blasir við íslenskri þjóð í dag. Því miður, ef marka má ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, er ekki mikill vilji hjá stjórnarflokkunum til að taka í útrétta hönd okkar í stjórnarandstöðunni þegar við höfum bent á það að peningamálastefna Seðlabankans hefur gríðarlega neikvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífsins, gríðarlega neikvæð áhrif á skuldug heimili í landinu og gríðarlega neikvæð áhrif á skuldugan ríkissjóð. Þetta eru allt staðreyndir sem liggja fyrir. Og erum við sammála um að þetta vandamál sé til staðar? Já, ég held það.

Hér lagði ég til að við settumst yfir þetta eins og fólk, færum yfir vandamálið og skipuðum starfshóp. Hv. þm. Björn Valur Gíslason tók ekki undir það og ekki gat ég heyrt að þingmenn Samfylkingarinnar tækju sérstaklega undir þá hugmynd. Ég er að velta fyrir mér hvort menn ætli að halda áfram þessum vinnubrögðum sem hafa einkennt Alþingi Íslendinga síðasta árið eða svo. Ég hafna því algjörlega vegna þess að hér eru svo stórir hagsmunir undir er snerta íslenskt atvinnulíf, íslensk heimili og íslenskan ríkissjóð sem mun að óbreyttum stýrivöxtum þurfa að greiða miklu hærri vexti vegna sinna miklu skulda. Þetta er vandamál sem við þurfum að ráðast á.

Ég vil að lokum segja vegna ummæla hv. þm. Björns Vals Gíslasonar að um leið og þjóðin fór að standa saman og stjórnmálaleiðtogarnir settust sameiginlega niður í Icesave-málinu eftir synjun forsetans hefur gengi krónunnar styrkst og skuldatryggingarálag ríkisins lækkað. Þannig náum við árangri, með því að standa saman, en því miður sýnist mér af (Forseti hringir.) viðbrögðum stjórnarliða hér margra, fyrir utan hv. þm. Lilju Mósesdóttur, (Forseti hringir.) að nýrra vinnubragða sé því miður ekki (Forseti hringir.) að vænta á Alþingi Íslendinga.