138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[14:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Kannski má segja að það sem við erum að ræða hérna sé ekki bara einstakar ákvarðanir peningastefnunefndar eða fyrirkomulag peningamála, við erum öðrum þræði og kannski fyrst og fremst að ræða um kostnaðinn við að hafa hér sjálfstæða mynt. Hann er verulegur. Það er engum blöðum um það að fletta að það er mjög óþægilegt að vera í þeirri stöðu sem við erum í núna þar sem skuldir heimila, fyrirtækja og ríkisins eru allverulegar, reyndar ekki nema að hluta í innlendri mynt en það er ansi stór hluti. Þegar við búum við þá stöðu að vera með hávaxtamynt er einfaldlega miklu erfiðara að vinna úr skuldavanda en ef við værum hér með einhverja mynt þar sem vextir væru mun hóflegri.

Þetta er ekki vandi sem við leysum með því að skamma peningastefnunefndina eða reyna að þrýsta henni til þess að lækka vexti um 100 punkta frekar en 50 eða hvað það nú er sem ákvörðunin stendur um hverju sinni. Þessu getum við kannski breytt á mjög löngum tíma ef við höldum krónunni eða við getum ákveðið að fórna krónunni og taka upp annan gjaldmiðil í staðinn. Ávinningurinn af því fyrir skuldsetta, hvort sem það eru einstaklingar, heimili eða fyrirtæki, yrði allverulegur. Ég ætla ekki að draga fjöður yfir að það eru bæði kostir og gallar sem tengjast svo sem ekki vaxtabyrðinni sem við getum rætt betur síðar þannig að ég ætla ekki að halda því fram að það sé ein allsherjarlausn á öllum vandamálum.

Við getum bara velt því fyrir okkur til þess að hafa einhverjar tölur í umræðunni að ef raunvextir hér lækkuðu um 1–2%, eins og þeir mundu væntanlega gera við það að skipta um mynt, mundu menn í stað þess að borga t.d. 5% raunvexti af íbúðalánum borga á að giska þriðjungi lægri vexti. Það væri aldeilis góð búbót fyrir ýmsa.