138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[14:43]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni fyrir þetta mál, þetta er nefnilega mjög mikilvægt. Í umræðu um Evrópusambandsmál að undanförnu hefur þessum gjaldmiðilsmálum mjög verið haldið að okkur og þeir sem hafa verið andstæðingar Evrópusambandsins hafa ítrekað verið spurðir: Hvað viltu gera í gjaldeyrismálum? Viltu borga háa vexti á Íslandi, og annað slíkt. Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir um að þessi mál verði einfaldlega skoðuð út frá öllum sjónarmiðum er því mjög mikilvæg.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að á nýafstöðnu búnaðarþingi var svokölluð Evrópunefnd sem fjallaði um aðild að Evrópusambandinu og fékk til sín fulltrúa allra flokka, nema Samfylkingar sem sá sér ekki fært að mæta. Þar voru þessi mál rædd mjög mikið og fulltrúar flokkanna sem þangað mættu höfðu misjafnar skoðanir á þessum gjaldmiðilsmálum. Það er virkilega mikilvægt að þetta verði tekið saman af til þess bærum aðilum og þetta verði skoðað mjög vel, því að það er nauðsynlegur þáttur í umræðunni um Evrópusambandið að það komi upp á borðið hvaða möguleikar eru í stöðunni fyrir okkur í þessum gjaldeyris- og gjaldmiðilsmálum til þess að hægt sé að taka eðlilega afstöðu til þess.

Í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar hér áðan kom fram að það eru mjög mörg ár í að við getum tekið upp evru, ef við göngum í Evrópusambandið, þannig að það er mjög mikilvægt að þetta sé skoðað. Enn fremur vil ég segja að í yfirlýsingu sem búnaðarþing sendi frá sér — búnaðarþing og bændasamtökin hafa verið vænd um að vera með einróma og einhliða áróður án þess að vera málefnaleg en ég tek ekki undir það — á búnaðarþingi fór fram mjög vönduð vinna um þessi mál og í þeirri yfirlýsingu sér þingið ástæðu til þess að minna á einmitt þennan punkt, að ekki hafi verið fullreynt og fullskoðaðir möguleikar á þessum gjaldeyrismálum, hvort sem er samkomulagi við Evrópusambandið um samstarf í efnahags- og peningamálum eða með öðrum hætti. Ég fagna þessu máli því mjög og mér finnst þetta vera rétta leiðin til þess að draga upp á yfirborðið kosti og galla bæði myntsamstarfs eða upptöku annarra gjaldmiðla og annars slíks.